Segir fullnægjandi áhættumat hafa skort

Frá björgunarstörfum í Grindavík í janúar síðastliðnum.
Frá björgunarstörfum í Grindavík í janúar síðastliðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinnueftirlitið telur að meðal annars megi rekja banaslysið sem varð þegar karlmaður á jarðvegsþjöppu féll ofan í sprungu í Grindavík í byrjun ársins til þess að fullnægjandi áhættumat fyrir verkið lá ekki fyrir.

Áhættumat skorti meðal annars um jarðfræðilegar aðstæður á svæðinu þar sem maðurinn starfaði og hvernig hægt væri að haga vinnu þar með tilliti til aðstæðna þannig að öryggi starfsfólks væri ekki stefnt í hættu.

Verkfræðistofan Efla hafði umsjón með verkinu, sem var unnið að beiðni Náttúruhamfaratrygginga Íslands, NTÍ.

„Að áliti Vinnueftirlitsins hefði verkfræðistofan í ljósi aðkomu hennar að verkinu átt að hlutast til um gerð slíks áhættumats. Að sama skapi hefði verktakinn sem um ræddi átt að undirgangast það áhættumat eða vera sjálfur með fullnægjandi áhættumat,“ segir í skýrslu Vinnueftirlitsins um vinnuslysið.

„Vinnueftirlitið getur ekki fullyrt um hvernig kynningu á hættum og verklagi var nákvæmlega háttað gagnvart þeim sem komu að umræddu verki, ásamt því hvernig eftirfylgni var, en ítrekar að sú kynning hefði hvað sem öðru líður átt að byggja á skriflegu áhættumati að undangenginni ítarlegri greiningu á hættum á svæðinu og hvernig unnt væri að takmarka þær með tilliti til öryggis starfsfólks. Á það skorti,“ segir einnig í niðurstöðum skýrslunnar.

Má velta því upp hvort verkið hafi verið áhættunnar virði

Vinnueftirlitið áréttar einnig í niðurstöðum sínum að gera þurfi áhættumat fyrir alla atvinnustarfsemi, hvort sem um staðbundna eða færanlega starfsemi er að ræða, óháð starfsmannafjölda. Jafnframt verði að tryggja eftirfylgni með framkvæmd áhættumats og uppfæra það eftir því sem tilefni verða til.

„Þegar verk eru áhættumetin þá ætti fyrsta spurningin alltaf að vera hvort algjörlega nauðsynlegt sé að framkvæma tiltekið verk sem hefur hættur í för með sér. Í ljósi aðstæðna í Grindavík, þar sem atburðarás í tengslum við náttúruhamfarir var enn í gangi, má velta upp hvort þetta tiltekna verk hafi verið áhættunnar virði,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert