Sér ekkert að því að atkvæðamagn hafi breyst eftir á

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformanni Pírata, finnst ekki athugavert að atkvæðamagni í framkvæmdastjórn flokksins hafi verið breytt eftir að niðurstaða í kjöri til framkvæmdastjórnar var ljós.

Spurð um forsendubrest þeirra sem greiddu atkvæði í kjörinu, þá segir Þórhildur Sunna, að löng hefð sé fyrir því innan flokksins að atkvæðamagn í stjórn breytist að kjöri loknu.

„Kom mörgum á óvart“

Tilkynnt var um það eftir að kjöri í framkvæmdastjórn lauk 7. september að Atli Stefán Ingvarsson, fyrrverandi formaður stjórnar, hafi einungis náð inn sem varamaður og var hann því utan fimm manna aðalstjórnar en var annar tveggja varamanna í stjórn.

Hópur þungavigtarfólks innan flokksins er sagður hafa verið ósáttur með niðurstöðu kjörsins. Þeirra á meðal er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður. Hún segist hins vegar ekki kannast við að vera hluti af neinum hópi.

„Ég held að það hafi komið mörgum á óvart að Atli Stefán hafi ekki hlotið brautargengi í kosningunum. En ágreiningurinn í kjölfarið snéri að því hvernig staðið var að kosningabaráttunni,“ segir Þórhildur Sunna.

Vísar hún þar til þess að Atli Þór Fanndal, fyrrum samskiptastjóri flokksins, er sagður hafa staðið að smölun sem leiddi til þess að ný stjórn með nýju fólki tók við. Atli Þór var í framhaldinu rekinn sem samskiptastjóri flokksins.

Atli Stefán fékk atkvæði að lokum 

Eftir niðurstöðuna var ljóst að Atli Stefán var ekki með atkvæðisrétt í stjórn. Það breyttist hins vegar um helgina þegar tilkynnt var um að varamenn væru nú komnir með atkvæðisrétt í stjórninni. Eins var tilkynnt um að Halldór Auðar Svansson væri ekki lengur framkvæmdastjóri stjórnar en hann tók við eftir kjör Pírata á aðalfundi í Hörpu 7. september. Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir tók við.

Segist ekki hluti af neinum hópi 

Þórhildur Sunna segir deilur hafa snúið að meintri smölun fyrir stjórnarkjörið.

En er það ekki einn af öngum lýðræðisins að þetta sé gert. Að fólki sé smalað saman fyrir kosningar eða kjör?

„Jú, jú,“ segir Þórhildur Sunna.

En hvers vegna að vera þá ósáttur?

„Þú verður að spyrja fólk um það. Ég var ekki hluti af þessum hópi,“ segir Þórhildur Sunna.

Hún segir að fyrri stjórn og núverandi stjórn hafi fundað saman og að niðurstaða þeirra hafi verið sú að veita varamönnum atkvæðisrétt.

„Það er ekkert meira um það að segja,“ segir Þórhildur Sunna.

Hún segir langa hefð fyrir því innan Pírata að varamenn hafi málfrelsi og atkvæðisrétt á fundum framkvæmdastjórnar.

En finnst þér sjálfsagt að fólk breyti leikreglunum eftir á?

„Það er löng hefð fyrir þessari framkvæmd hjá Pírötum. Ég sé ekkert athugavert við að hún haldi áfram hjá þessari framkvæmdastjórn,“ segir Þórhildur Sunna.

En nú ert þú þingflokksformaður og berð því meiri ábyrgð en næsti maður. Hvað finnst þér um þessa niðurstöðu þessa máls, að atkvæðamagni sé breytt í stjórn eftir kjörið?

„Þetta hefur oft verið niðurstaðan í framkvæmdastjórn Pírata og ég sé ekkert athugavert við þetta,“ segir Þórhildur Sunna.

En nú greiddi fólk atkvæði út frá ákveðnum forsendum. Það voru ríflega 200 manns sem kusu. Reglunum er breytt eftir á. Hvað finnst þér um það?

Við erum talsmenn opins lýðræðis og þess vegna hefur þessi vinnuregla verið lengi. Það er ekkert öðruvísi með þessa framkvæmdastjórn en aðrar,“ segir Þórhildur Sunna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert