Sögulega lítill stuðningur við ríkisstjórn

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að Bessastöðum 9. apríl 2024.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að Bessastöðum 9. apríl 2024. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sitjandi ríkisstjórn er sú óvinsælasta frá því mælingar Gallup á stuðningi við ríkisstjórn hófust fyrir um 30 árum. Þá hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins aldrei mælst minna.

Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Ríkisútvarpið greinir frá.

Enn ná Vinstri grænir ekki inn á þing

Enn mælist Samfylkingin með mest fylgi og fylgir Miðflokkurinn í kjölfarið. Gætu flokkarnir nú myndað tveggja flokka stjórn. 

Fylgi Miðflokksins hækkar um sex prósent, úr 16 prósentum upp í 19 prósent á meðan fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar úr 17 prósentum niður í 14 prósent. Munar því 5 prósentum á flokkunum í dag.

Samfylkingin mælist með sama fylgi og í síðustu könnun, eða rúm 26 prósent.

Þá mælist Viðreisn með 10 prósenta fylgi, Píratar með átta prósent, Flokkur fólksins með sjö og hálft prósent, Framsóknarflokkurinn með sex prósent og Sósíalistaflokkurinn með fimm prósent.

Vinstri Grænir, sem hafa verið í mikilli lægð í síðustu mælingum, mælast með rúmlega fjögur prósent og myndu ekki ná manni inn á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar sjö þingsætum

Í umfjöllun ríkisútvarpsins kemur fram að samkvæmt útreikningi Gallup á skiptingu þingsæta myndi Samfylkingin fá nítján þingsæti, og bætir flokkurinn þar við sig 14 sætum frá síðustu kosningum. Þá fengi Miðflokkurinn þrettán þingsæti, og bætir þar við sig tíu sætum frá síðustu kosningum.

Flokkarnir myndu því samanlagt fá 32 þingsæti og myndi það duga til að mynda ríkisstjórn með minnsta mögulega meirihluta á þingi.

Þá segir í frétt Rúv að Sjálfstæðisflokkurinn myndi aðeins ná níu þingsætum eins og er og er það sjö þingsætum minna en í síðustu kosningum.

Þá fengi Viðreisn sex sæti, Píratar fimm, Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn fjögur og myndi Sósíalistaflokkurinn fá þrjú þingsæti.

Stuðningur við ríkisstjórn lækkar um 50 prósentustig

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist um 24 prósent. Það er minnsti stuðningur sem nokkur ríkisstjórn hefur fengið frá upphafi mælinga.

Athygli vekur að stuðningur við ríkisstjórnina mældist um 74 prósent er hún var mynduð árið 2017. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert