Tíu mánaða bið, tuttugu „aðgerðir“

Um 600 manns höfðu skráð sig til þátttöku á þinginu …
Um 600 manns höfðu skráð sig til þátttöku á þinginu og 400 til viðbótar í gegnum fjarfundarbúnað. mbl.is/Karítas

„Bættur námsárangur í alþjóðlegum samanburði.“

Svo hljómar ein tuttugu nýrra fyrirhugaðra aðgerða sem mennta- og barnamálaráðherra kynnti á sérstöku menntaþingi í gær. Aðgerða sem meðal annars er ætlað að snúa skólakerfinu af þeim glapstigum sem svartar niðurstöður PISA hafa varpað ljósi á.

Markmið þessarar einu aðgerðar er eftirfarandi: „Að námsárangur nemenda á grunnskólastigi standist alþjóðlegan samanburð.“

Einhverjum kann að þykja aðgerðin nokkuð samhljóða markmiðinu. Ef til vill ekki síst vegna þess að aðgerðin lýsir eingöngu markmiði en felur í sér engar skýringar á því hvernig þessu sama markmiði skuli náð.

Fleiri svonefndar aðgerðir sem kynntar voru í gær eru brenndar sama marki.

„Öflugir kennarar í skólum landsins,“ er önnur. Markmiðið: „Að efla gæði kennslu.“

Frá menntaþingi í gær. Þúsund manns fengu klukkustund til að …
Frá menntaþingi í gær. Þúsund manns fengu klukkustund til að veita endurgjöf. mbl.is/Karítas

Þúsund gestir, einn klukkutími

Þess ber að geta að um er að ræða drög, sem um þúsund gestum menntaþings var svo ætlað að ræða í hópum á einni klukkustund, og sem móta á í kjölfarið með þá endurgjöf til hliðsjónar.

Um tíu mánuðir eru liðnir frá því að niðurstöður PISA voru kynntar. Þar hrundi Ísland í samanburði við önnur lönd og féll ekkert skólakerfi jafn langt niður stigann og það íslenska.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hugðist kynna viðbrögð við niðurstöðum PISA í júní.

Hætt var við það fyrirvaralaust og kom í ljós eftir umleitanir Morgunblaðsins að kynningu viðbragðanna hefði verið frestað fram á haust.

Þau viðbrögð litu svo fyrst dagsins ljós í gær, í formi einhverra þeirra tuttugu aðgerða sem allar eru nefndar hér til hliðar.

Þess ber að geta að þeim er ekki frekar lýst í þeirri aðgerðaáætlun sem dreift var á ráðstefnunni heldur fara hér orðrétt.

Búist er við enn verri niðurstöðum úr næstu PISA-könnun, sem …
Búist er við enn verri niðurstöðum úr næstu PISA-könnun, sem lögð verður fyrir í vetur. mbl.is/Karítas

Sameinað eignarhald aðila

Inntur eftir því hvort nákvæmari útfærsla verði birt segir ráðherra í samtali við Morgunblaðið að eftir samráð við gesti þingsins verði áætlunin birt með „eilítið ítarlegri hætti“.

„Þetta er auðvitað samantektarskjal, við viljum fá sýn þeirra þúsund manns sem taka þátt í þessu menntaþingi,“ segir Ásmundur.

„Það væri líka sérstakt að skella þessu alveg niður nákvæmlega ítarlega, staf fyrir staf, punkt fyrir punkt, vegna þess að við viljum hafa svigrúmið og sveigjanleikann hér í þessu samtali – vegna þess að ég trúi því og reynslan sýnir okkur það reyndar í allri innleiðingu að ef við viljum raunverulega sjá orð verða að breytingum þá gerist það með samtali, samvinnu og sameinuðu eignarhaldi ólíkra aðila.“

Ein aðgerðin kveður á um bættan námsárangur í alþjóðlegum samanburði. Þú talar um að það sé ekki búið að endanlega fullmóta hvernig þetta verði gert. En ertu með einhverja sýn á til hvaða aðgerða væri hægt að grípa?

„Já, það eru þessar aðgerðir sem við nefnum hér. Það eru aukin námsgögn. Það er aukin þjónusta við kennara. Það er aukin stofnþjónusta. Það er aukið samstarf foreldra og skóla. Þannig að þetta tengist allt saman með einum eða öðrum hætti,“ svarar ráðherrann.

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins, á menntaþingi.
Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins, á menntaþingi. mbl.is/Karítas

Bíður með að fullmóta aðgerðir

Eins og áður sagði sóttu um þúsund manns þingið og hyggst ráðherra bíða með að fullmóta aðgerðaáætlunina þar til unnið hefur verið með endurgjöf þeirra.

Spurður hvenær landsmenn megi búast við að sjá lokaútgáfu 2. aðgerðaáætlunar menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 og hvenær aðgerðunum verði síðan hrint í framkvæmd segir ráðherrann að nú þegar sé hluti þeirra kominn til framkvæmda.

Sem dæmi nefnir hann eflingu foreldrastarfs, boðað frumvarp um tvöföldun framlaga í þróunarsjóð námsgagna og vinnu við nýtt námsmatskerfi.

Viðskiptaráð var nefnt sem einn stærsti vandi menntakerfisins. Ráðið hefur …
Viðskiptaráð var nefnt sem einn stærsti vandi menntakerfisins. Ráðið hefur talað fyrir samræmdu námsmati við lok grunnskólagöngu til að sporna við ríkjandi ójafnræði barna eftir búsetu þeirra. mbl.is/Karítas

Búist við verri niðurstöðum

Þeir sérfræðingar sem við höfum talað við búast við enn verri niðurstöðum úr næstu PISA-könnun. Hver er þín sýn á það?

„Já, ég held að það sem við þurfum að gera sé að við þurfum að fjölga okkar mælitækjum gagnvart menntakerfinu. PISA er ein mælieining, það eru fleiri alþjóðlegar mælingar sem við þurfum að skoða inni í þessu, það eru líka innlendar mælingar sem við þurfum að skoða,“ svarar Ásmundur Einar og heldur áfram:

„Ég held að við gætum verið að byrja að sjá punktinn þar sem við förum að snúa þessu eilítið við en við þurfum að fylgja bæði þeirri aðgerðaáætlun sem við erum að klára og þessari mjög fast eftir til þess að sjá raunverulegar breytingar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert