„Það er ekki verið að bæta stöðuna gagnvart náttúruvánni með því að flytja flugvöllinn í Hvassahraun. Þá er verið að gera stöðuna enn verri, því það eru miklu meiri líkur á að hraun flæði yfir það stæði heldur en nokkurn tíma þar sem flugvellirnir eru nú þegar.“
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Þorvaldur bendir á að mögulegt flugvallarstæði í Hvassahrauni sé inni á sama hættusvæði og Keflavíkurflugvöllur og á svipuðu hættusvæði og Reykjavíkurflugvöllur.
„Það er ekki verið að breyta áhættunni á einn eða neinn hátt, nema í Hvassahrauni þá aukast líkurnar á að hraun muni flæða yfir flugvallarstæðið.“
Allir þessir flugvellir séu í sömu hættu þegar kemur að gjóskufalli, jarðskjálftum og gasmengun.
Eldsumbrot á mögulegu flugvallarstæði í Hvasshrauni séu áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að við erum komin inn í eldgosatímabil.
Skýrsla starfshóps um flugvöll í Hvassahrauni, sem hefur verið að störfum frá árinu 2020, var kynnt á fundi innviðaráðuneytisins fyrr í dag.
Meðal helstu niðurstaðna er að flugvallarstæðið yrði að mestu utan skilgreindra eldstöðvarkerfa og að líkur á gosupptökum á svæðinu yrðu hverfandi. Þá væri svæðið ekki útsett fyrir hraunflæði lítilla gosa sem ættu sér stað í nálægustu eldstöð.
Gjósi aftur á móti í eldstöðvakerfi Krýsuvíkur gæti hraun farið yfir hluta svæðisins.
„Við munum fá fleiri hraungos á Reykjanesskaganum. Við vitum svo sem ekki hversu mörg og hversu stór þau verða, en það er mjög líklegt að það geti gosið á Krýsuvíkurreininni og Trölladyngjureininni og það sett hraun niður í átt að Hvassahrauni og ef hraunið er nægilega stórt þá getur það auðveldlega farið yfir þetta hugsanlega flugvallarstæði í Hvassahrauni,“ segir Þorvaldur.
„Menn mega ekki gleyma því að undirstaðan á þessum stað er hraun. Og það er ekki það gamalt.“
„Það eru þarna ungar hraunmyndanir bæði undir hugsanlegu flugvallarstæði og í nánasta umhverfi og það er ekki langt upp í gossprungu eins og í Trölladyngju,“ bætir hann við.
Það sé kjánaskapur að tala um að ekki þurfi að taka tillit til eldsumbrota.
„En síðan er þetta alltaf spurning um hvað er ásættanlegt, það verða menn að meta hverju sinni, en miðað við staðsetningu þá er veruleg hætta.“