Vildu bæta umferðaröryggi á Sæbraut í fyrra

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillögu í fyrra þar …
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram tillögu í fyrra þar sem hann vildi auka öryggi gangandi vegfarenda með snjallstýrðu gangbrautarljósi. Samsett mynd

„Það er náttúrulega hræðilegt tilefni að þurfa að ræða þetta þegar orðið hefur banaslys en það er rétt að þetta er ekki nýtt mál og þetta mál hefur verið rætt í að minnsta kosti nokkur ár,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á Sæbraut.

Kjartan lagði fram tillögu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur þann 18. október í fyrra.

„Lagt er til að vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs, verði fjölgað í tvær á nýjan leik. Jafnframt verði öryggi gangandi vegfarenda, á leið yfir Sæbraut, aukið, t.d. með hnappastýrðu og/eða snjallstýrðu gangbrautarljósi. Slæmt ástand ríkir nú á gatnamótunum þar sem þau anna engan veginn mikilli umferð frá atvinnuhverfinu sunnan Sæbrautar né ört vaxandi íbúabyggð þar,“ segir í tillögunni sem var felld niður með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.

Kemur fram í bókuninni að mistök hafi verið gerð þegar þegar ákveðið var að þrengja gatnamótin og fækka vinstribeygjuakreinum af Kleppsmýrarvegi inn á Sæbraut til suðurs og brýnt væri að mistökin yrðu leiðrétt sem fyrst.

„Jafnframt er brýnt að tryggja öryggi skólabarna og annarra gangandi vegfarenda á leið yfir Sæbraut, t.d. með hnappastýrðum og/eða snjallstýrðum gangbrautarljósum,“ segir í bókun borgarfulltrúanna frá 29. nóvember í fyrra.

Vildu koma fyrir snjallstýrðum gangbrautarljósum

Í samtali við mbl.is segir Kjartan að uppi hafi verið hugmyndir að setja upp göngubrú og sé það að mörgu leyti mjög góð lausn þó að það sé í sjálfu sér ekki trygging fyrir því að þeir sem færu yfir götuna myndu nota brúna.

Segir Kjartan að þegar breytingar hafi verið gerðar á gatnamótunum hafi verið tekin af beygjuakrein og vísað til þess að það væri gert í þágu öryggis gangandi vegfarenda.

„En við vildum ganga lengra. Við töldum að það væri ekki nóg og við vildum að öryggi yrði tryggt með snjallstýrðum gangbrautarljósum, sem er mjög auðvelt með nútímatækni og eru víða komin í okkar nágrannalöndum,“ segir borgarfulltrúinn og bætir við.

„Með slíkum ljósum er mögulegt að veita gangandi vegfarendum algjöran forgang og fylgjast með að þeir komist yfir áður en bílum er hleypt áfram.“

Þörf á að taka upp málið aftur

Greint hefur verið frá því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins muni á morgun leggja fram tillögu um að ráðist verði í tafarlausar neyðaraðgerðir til að bæta umferðaröryggi við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar.

Þar er lagt til að sérstakri snjallgangbraut verði komið fyrir á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar.

Aðspurður segir Kjartan það vera hræðilegt að upp þurfi að koma banaslys svo að umræðan fari aftur af stað.

„Best hefði verið ef vel hefði verið tekið í þessa tillögu og drifið áfram en það var ekki gert og þá er auðvitað þörf á að taka málið upp aftur.“

Vonast til að betur verði tekið í tillöguna á morgun

Eruð þið óhress með að tillagan hafi ekki verið samþykkt á sínum tíma?

„Já auðvitað, við leggjum fram ýmsar tillögur og sumar ná fram að ganga og aðrar ekki og auðvitað finnst okkur leiðinlegt að þessi tillaga hafi ekki náð fram að ganga fyrir ári.“

Áttu von á því að betur verði tekið í tillöguna sem lögð verður fram á morgun?

„Já, ég vona það. Ég vil vera bjartsýnn á það að menn taki betur í þessa tillögu núna heldur en þeir gerðu fyrir ári.“

Foreldrar látið í sér heyra

Þá segir borgarfulltrúinn einnig foreldra hafa haft samband og sent skilaboð strax degi eftir banaslysið.

„Foreldrar hafa verið mjög virkir því eins og ég segi þá er þetta mál ekki nýtt. Það hefur verið vakin athygli á þessari hættu í nokkur ár, síðan að Vogabyggð fór að byggjast, að þarna væri nýtt og mjög þétt íbúðahverfi handan við núverandi íbúðahverfi, sem er Vogahverfið og börnin sækja skólann í Vogahverfið,“ segir Kjartan og bætir við.

„Strax og fólk flutti þarna inn þá var vakin athygli á því að það þyrfti að bæta mjög mikið umferðaröryggi þarna. Sérstaklega fyrir skólabörnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka