Vilja útvíkka vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjálfstæðisflokkurinn leggur í dag fram tillögu á borgarstjórnarfundi um útvíkkun vaxtarmarka á höfuðborgarsvæðinu og að samtal verði hafið við nágrannasveitarfélögin um endurskilgreiningu markanna.

Vaxtarmörk eru skilgreind í svæðisskipulagi og marka það svæði þar sem húsnæðisuppbygging er heimil. Benda sjálfstæðismenn á að sú vinna sem liggi til grundvallar vaxtarmörkunum hafi farið fram fyrir um áratug og byggi á mannfjöldaspám þess tíma, en forsendur hafi gjörbreyst.

„Síðastliðinn áratug hafa forsendur að baki vaxtarmörkunum gjörbreyst, mannfjöldinn hefur aukist langt umfram spár og húsnæðisþarfir fjölskyldna breytast í sífellu. Þau svæði sem hafa verið skilgreind fyrir húsnæðisuppbygginu munu aldrei nægja til að mæta þörfinni á húsnæðismarkaði, það er raunveruleikinn”, er haft eftir Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í yfirlýsingu frá flokknum.

Staðan alvarleg

Þar segir jafnframt að húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar sé hrunin og að staðan sé alvarleg. Hingað til hafi öll áherslan verið á þéttingu byggðar, en þéttingarstefnan muni aldrei ná að anna þeirri gríðarlegu eftirspurn sem ríki á húsnæðismarkaði.

Vísað er til þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi í síðustu viku kynnt nýja íbúðatalningu þar sem í ljós hafi komið að íbúðum í byggingu hérlendis fækkaði um 16,8% milli ára þrátt fyrir vaxandi húsnæðisþörf. Aðeins séu 877 íbúðir á framkvæmdastigi í Reykjavík, þrátt fyrir kosningaloforð borgarstjóra um uppbyggingu 3.000 íbúða árlega.

Sjálfstæðismenn segja forsendur brostnar fyrir þeim vaxtarmörkum sem nú eru …
Sjálfstæðismenn segja forsendur brostnar fyrir þeim vaxtarmörkum sem nú eru skilgreind. mbl.is/Sigurður Bogi

 

Sveitarfélögin hafa neitunarvald

Sérhvert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur neitunarvald um útvíkkun vaxtarmarkanna en sjálfstæðismenn vilja að hafið verði samtal við nágrannasveitarfélögin á vettvangi svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins um endurskilgreiningu markanna svo unnt verði að ráðast í víðtækari húsnæðisuppbyggingu. 

„Vextir og verðbólga hafa vissulega ekki reynst neinn liðsauki við lausn húsnæðisvandans, en lóðaskorturinn í Reykjavík hefur töluverð áhrif. Viðvarandi þröngsýni meirihlutans gagnvart útvíkkun vaxtarmarkanna og nýjum svæðum í skipulagi hefur leitt af sér mjög alvarlega stöðu á húsnæðismarkaði. Við þurfum að nálgast verkefnið af skynsemi, halda áfram að þétta byggð á svæðum sem hafa til þess svigrúm en samhliða brjóta nýtt land og hugsa enn lengra til framtíðar,” segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert