Áætlað er að ríflega 15.500 heimili og fyrirtæki hafi verið á meðal þeirra viðskiptavina RARIK sem urðu fyrir áhrifum rafmagnsleysis og truflunum fyrr í dag.
Þetta segir Rósant Guðmundsson, samksiptastjóri Rarik, í skriflegu svari til mbl.is.
„Allir viðskiptavinir RARIK ættu að vera komnir með rafmagn eftir stóra truflun sem varð í flutningskerfi Landsnets. Rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi í dreifikerfi RARIK urðu á svæðinu frá aðveitustöð á Glerárskógum á Vesturlandi, á öllu Norðurlandi og á Austurlandi til og með aðveitustöðvar okkar á Eyvindará. Einnig leysti út útgangur frá aðveitustöð á Höfn sem fæðir Suðursveitina,“ segir í tilkynningu frá Rarik.
Þetta á eingöngu við um dreifisvæði Rarik sem kveðst ekki vera með upplýsingar um möguleg áhrif á Vestfjörðum.
Enduruppbygging raforkukerfisins hjá Landsneti og Rarik hefur gengið vel, og flestir ættu nú þegar að vera komnir með rafmagn aftur.
Rafmagn var komið á í öllu dreifikerfi RARIK rétt eftir klukkan 14 í dag.