Það eru vonbrigði að tengivirkið á Grundartanga hafi ekki komið í veg fyrir rafmagnsleysið sem lék hálft landið grátt í dag, segir nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hann telur rafmagnsleysið vera það alvarlegasta síðustu fimm ára.
Rafmagnslaust hefur verið á hálfu landinu í dag, nánar tiltekið á Austurlandi og Norðurlandi, eftir að rafmagn sló út hjá Norðuráli á Grundartanga og olli truflunum í flutningakerfum Landsnets og Rariks.
„Ég hélt, þegar það var farið í tengivirkið við Grundartanga fyrir ekki svo mörgum árum, að það ætti að koma í veg fyrir að nákvæmlega þetta gerðist,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Njáll bendir á að stjórnvöld hafi vissulega lagt vinnu í að styrkja raforkuflutnignskerfið á Íslandi í framhaldi af rafmagnsleysi sem varð vegna óveðurs í desember 2019.
„Það eru mikil vonbrigði í þessu að við skulum vera að lenda í svona alvarlegum rafmagnstruflunum,“ segir Njáll í samtali við mbl.is en hann reiknar með að umhverfis- og samgöngunefnd óski eftir gögnum um rafmagnsleysið.
Hann veltir því fyrir sér hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir tjónið af þessu rafmagnsleysi ef búið væri að tengja Holtavörðuheiðalínu 3, sem myndu tengja Holtavörðuheiði og Blöndu, eða Blöndulínu 3, sem tengdi Blöndu og Akureyri.
„En auðvitað veit maður ekki hvað er að gerast eða, ef við værum búin að byggja upp flutningskerfið […], hvort það hefði hjálpað í þessum aðstæðum,“ segir Njáll. Hann telur mikilvægt að málið verði rætt í umhverfis og samgöngunefnd.
„Við höfum verið að sjá þetta í gegnum árin en þetta virðist í það minnsta vera alvarlegasta bilunin frá því í óverðinu desember 2019, sem var mjög slæmt og erfitt.“