Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra viðurkennir að það bitni á núverandi nemendum grunnskólanna að breytingar skólayfirvalda á menntakerfinu taki lengri tíma.
Þetta kom fram í máli ráðherrans þegar hann var spurður út í vandann sem blasir við og yfirlýstar aðgerðir sínar í Kastljósi í kvöld.
Urður Örlygsdóttir stýrði þættinum og rifjaði upp ítarlega umfjöllun mbl.is og Morgunblaðsins á undanförnum mánuðum, þar sem slæm staða íslenska menntakerfisins hefur verið í brennidepli.
Sagði hún ljóst að mjög skiptar skoðanir væru á menntakerfinu og einnig á því hvernig ætti að bregðast við stöðunni. Flestum væri þó ljóst að staðan væri ekki góð.
Á menntaþingi á mánudag hefði ráðherrann svo kynnt aðgerðir sem enn væru óljósar og í mótun.
„En það er ákall núna um aðgerðir frá stjórnvöldum, í þessum málum, og ekki bara innantóm orð,“ sagði Urður.
„Hverju ætlið þið að forgangsraða?“
„Já, það er auðvitað þannig, og hárrétt hjá þér, að allir aðilar, sem við getum kallað hagaðila menntakerfisins, gera sér grein fyrir því að það þarf breytingar í íslensku menntakerfi,“ svaraði Ásmundur.
„Þess vegna erum við að vinna eftir menntastefnu til ársins 2030. Erum að ljúka við fyrsta áfanga hennar, fyrstu aðgerðaáætlunina, þar sem eru gríðarlega stórar breytingar sem eru komnar fram í lagafrumvörpum.“
Nefndi hann nýtt námsmat sem dæmi, svokallaðan matsferil, sem gert er ráð fyrir að verði innleitt í grunnskólana frá og með næsta hausti.
Innleiðingunni var flýtt töluvert í kjölfar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins í sumar, sem laut ekki síst að mikilli gagnrýni á ákvörðun ráðherrans um niðurfellingu samræmdu könnunarprófanna og að hann hefði ekki sett á fót annað samræmt námsmat í stað þeirra.
Þá nefndi hann nýja löggjöf um skólaþjónustu og aukna þjónustu við kennara.
„Við sjáum það að kennarar eru – þrátt fyrir að það hafi tekist ágætlega í fyrstu aðgerðaáætluninni að fjölga kennurum, þá þurfum við að standa betur við bakið á þeim í sínum störfum. Alltof margir sem ekki fara til kennslu. Alltof margir sem hverfa frá kennslu og fara til annarra starfa.“
Tiltók hann einnig endurskoðun námsgagna.
„Einhverjar mestu lagabreytingar í námsgagnagerð í hundrað ár,“ sagði ráðherrann.
„Þannig að það eru stórar aðgerðir þarna. Síðan er aðgerðaáætlunin sem við vorum að ræða núna á menntaþingi – gerir ráð fyrir að byggja ofan á þetta, byggja ofan á þessar aðgerðir, og dýpka þær.“
Sagði hann nýju aðgerðaáætlunina fela í sér fjölda aðgerða sem ráðuneyti hans hefði kallað eftir samráði um.
Nánar tiltekið eru þær tuttugu talsins, sumar lítið sem ekkert skilgreindar og aðrar hreinlega loftkenndar.
Alls óljóst virðist svo vera hvernig stjórnvöld hyggjast ná yfirlýstum markmiðum þeirra.
„Þar eru fjölmargar aðgerðir sem við vildum kalla eftir samtali um, meðal fagfólks, meðal grasrótarinnar, og erum að kalla eftir því núna meðal almennings,“ sagði ráðherrann.
„Settum út frétt um það,“ bætti hann við og vísaði þar væntanlega til tilkynningar á vef stjórnarráðsins, sem sumir ráðherrar eru gjarnir á að kalla fréttir.
Urður tók til máls:
„En af hverju er bara brugðist við núna? Af hverju er menntaþingið haldið núna? Niðurstöður PISA lágu fyrir fyrir tíu mánuðum og þú hefur verið inntur eftir svörum lengi.“
Ráðherra hló eilítið við.
„Jú, en það liggur fyrir að við höfum verið að vinna að fyrstu aðgerðaáætlun menntastefnu. Það er gert ráð fyrir að henni sé að ljúka núna á þessum misserum. Við höfum verið – ég hef verið sannfærður um það að þær aðgerðir sem við erum að ráðast í, og eru að koma til lagaframkvæmda núna, og eru komnar – ný stofnun, sem tók til starfa 1. apríl, sem hefur það hlutverk að vera þjónustumiðstöð menntunarinnar og menntakerfisins, sem var ekki til staðar.“
Ásmundur hélt áfram:
„Önnur aðgerðaáætlunin ætti að byggja ofan á þessum grunni. Við ættum ekki að hætta við þá stefnu sem við fórum í hér, með samþykkt Alþingis, menntastefnu til 2030 – gríðarlega stórar breytingar þar. Við ættum að treysta því ferli, halda því áfram, og halda þeim kerfisbreytingum áfram, og byggja svo ofan á þær,“ sagði hann.
„Og þess vegna eru PISA-niðurstöðurnar að koma inn í aðra aðgerðaáætlunina. Það hefði verið óskynsamlegt að kasta samráði sem þúsundir aðila hafa komið að, við mótun menntastefnunnar, og segja: Heyrðu, hér var að koma PISA-könnun sem er að mæla niðurstöður menntakerfisins líklega síðustu tíu ár, vegna þess að þú breytir ekki menntakerfi á einni nóttu.
Höldum áfram að byggja ofan á það og tökum þetta inn í þennan 2. áfanga menntastefnunnar, sem við erum að gera núna. Og ég hvet allan almenning til þess að fara inn og hafa skoðun á menntakerfinu, vegna þess að við eigum að gera það. Koma með ábendingar, vegna þess að lykillinn að því að koma aðgerðum til framkvæmda er samtal og samvinna við alla aðilana sem eru inni í menntakerfinu.“
Skömmu síðar var hann aftur spurður. Benti Urður á að hann hefði talað um að breytingar tækju svolítið langan tíma.
„En þeir nemendur sem eru þá í skólanum núna, mun það ekki bitna svolítið á þeim?“ spurði hún.
„Jú,“ svaraði ráðherrann. „En hvernig ætlarðu að breyta menntakerfi öðruvísi en að gefa þér tíma til þess að fara út í skólana, fylgja innleiðingu eftir. Nú erum við til dæmis með nýja matsferilinn – ætlunin að fara með hann inn í tuttugu skóla núna í vetur, með lesskilningshlutann, þróa hann í samtali við kennara, fá endurgjöf, af því að við viljum að þetta verkfæri, þetta matstæki – það er munurinn á samræmdu prófunum og þessum nýja matsferli að við viljum að þetta nýtist dag frá degi inni í skólastofunni, til þess að þjónusta nemandann, þjónusta kennarann, og þau finni það að þetta verkfæri virki,“ sagði hann.
„Og þá viljum við vita ef það virkar ekki núna. En það er rosalega auðvelt að segja: Heyrðu, við skulum bara slengja þessu á, þetta tekur gildi á morgun. Og þá erum við ekki að hlusta. En samtalið tekur tíma. En það felur í sér raunverulegar breytingar til lengri tíma og ég trúi einlæglega á þannig vinnubrögð.“