Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir aðhald í ríkisrekstrinum og efnahagsstefnan hafi skilað árangri.
„Vextir eru teknir að lækka og verðbólga hefur ekki mælst minni í þrjú ár. Þetta var forgangsmál þegar við endurnýjuðum ríkisstjórnarsamstarfið í vor. Aðhald í ríkisrekstrinum og efnahagsstefnan hafa skilað árangri,“ skrifar Bjarni í færslu sem hann birti á Facebook.
Bjarni vísar þarna til ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands sem ákvað í morgun að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig.
Hann segir nauðsynlegt að halda áfram á réttri braut, „draga úr umsvifum ríkisins og fara betur með hverja krónu skattgreiðenda. Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að spila með, sýna það í orði og verki að raunverulegur árangur sé þeim efst í huga. Ef allt gengur eftir og verðbólgan hjaðnar áfram getum við verið bjartsýn um að mun meiri vaxtalækkanir séu í farvatninu.“