Byggingarréttur hraðhleðslustöðvar í útboð

Gert er ráð fyrir hraðhleðsluaðstöðunni á svæðinu sem guli ramminn …
Gert er ráð fyrir hraðhleðsluaðstöðunni á svæðinu sem guli ramminn afmarkar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hefur boðið til sölu byggingarrétt fyrir hraðhleðslustöð til þjónustu við rafmagnsbifreiðar á lóðinni Grjóthálsi 2 við Vesturlandsveg. Er þar gert ráð fyrir aðstöðu fyrir fimmtán bifreiðar.

„Lóðin er vel staðsett við Vesturlandsveg með aðkomu frá Grjóthálsi. Kvaðir á lóð koma fram í deiliskipulagi m.a. um að tryggja snyrtilegan frágang lóðar og gróðurbelti til norðurs og austurs,“ segir í auglýsingu borgarinnar.

Engin hefðbundin bílastæði

Enn fremur kemur það fram að við áningarstaðinn skuli rekstraraðili setja upp bekki og borð auk þess sem honum sé heimilt að hafa þar sjálfsala og minni háttar skjólveggi. Góð lýsing á lóðinni er þá áskilin auk þess sem allar merkingar og auglýsingar rekstraraðila skuli vera á sjálfum hleðslubúnaðinum – ekki á sérstökum skiltum eða öðrum merkingum.

Biðstæði skuli vera á lóðinni sem rekstraraðili útfæri sjálfur, en hefðbundin bílastæði skuli þar engin sjást.

„Hleðslustæðin skulu opin almenningi óháð tegund bifreiða, en þó er ekki gerð krafa um aðra tengimöguleika en CCS-2-tengi. Útboðsgögn með nánari upplýsingum eru aðgengileg á vefnum utbod.reykjavik.is og þar er tekið við tilboðum en tilboðsfrestur rennur út á hádegi föstudaginn 11. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert