Fagnar breytingum en segir stefnuna enn óskýra

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. mbl.is/Karítas

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fagnar breytingum sem menntamálayfirvöld hafa boðað á samræmdu námsmati. Segir hann þær miklar framfarir frá áformunum í sumar. 

Í frumvarpsdrögum er nú kveðið á um skyldubundin próf í lesskilningi og stærðfræði þrisvar sinnum yfir grunnskólagöngu nemenda og er ráðherra gert að birta reglulega ópersónugreinanlegar upplýsingar um stöðu skólastarfs hér á landi.

Þrátt fyrir það er stefna stjórnvalda enn óskýr, að mati Björns Brynjúlfs, sérstaklega hvað varðar nýja námsmatið, svokallaðan matsferil, og þær aðgerðir sem grípa á til vegna niðurstaðna PISA.

Ánægður með þingið

Björn segist almennt ánægður með menntaþingið sem haldið var á mánudag og hrósar stjórnvöldum og Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, fyrir að hafa boðið fulltrúa Viðskiptaráðs að taka þátt.

Gaman hafi verið að taka samtalið og heyra skiptar skoðanir.

„Hlutirnir eru að færast í rétta átt, stjórnvöld eru að hverfa frá leyndarhyggju og nú eru skýr áform um skyldubundin samræmd próf í grunnfærni, sem er lesskilningur og reikningur. Þetta er mikil framför frá því í sumar, þá var allt annar tónn í yfirvöldum,“ segir Björn Brynjúlfur.

Björn Brynjúlfur í pallborði á menntaþingi á mánudag.
Björn Brynjúlfur í pallborði á menntaþingi á mánudag. mbl.is/Karítas

Of víðtæk aðgerðaáætlun

Hann telur þó ýmislegt enn mega betur fara. Til að mynda mættu aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við PISA-niðurstöðunum vera skýrari.

„Ég held að aðgerðaáætlunin sé of víðtæk. Við eigum að einblína á færri hluti sem skipta meira máli. Þar eru árangursmælikvarðar efstir á blaði að okkar mati. Við ættum að koma þeim í lag og byrja að mæla og þá getum við mælt tölulegan árangur af öllum hinum aðgerðunum,“ segir Björn Brynjúlfur og heldur áfram:

„Stefnan er enn óskýr að okkar mati. Það sést líka í námsmatsfrumvarpinu. Orðalag og hugtakanotkun eru óskýr. Við viljum sjá skýrari aðgerðir.“

Nemendur steyptir í sama mót

Á menntaþinginu kom samræmt námsmat til tals. Viðskiptaráð og Björn Brynjúlfur hafa talað fyrir því að skyldubundið lokamat verði við lok grunnskólagöngu barna sem framhaldsskólar geta horft til við innritun nemenda, til að sporna við ríkjandi ójafnræði barna við innritun í framhaldsskóla, eftir því hvar þau eru búsett.

Sú skoðun Björns hlaut ekki hljómgrunn á menntaþinginu.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, taldi nálgunina gera það að verkum að nemendur yrðu allir steyptir í sama mót.

„Við höfum bent á það síðan í sumar að skólaeinkunnir eru ónothæfar sem lokamat grunnskóla. Þær eru ekki samanburðarhæfar á milli skóla. Ef við viljum bera saman skólastarf á milli grunnskóla og færni nemenda við lok grunnskólagöngu þá þurfum við samræmt námsmat við lokamat grunnskóla,“ segir Björn Brynjúlfur og heldur áfram: 

„Þetta hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar myndi þetta tryggja að við gætum bætt skólastarf. Það er að segja, við sjáum hvaða skólar standa betur og hvaða skólar þurfa meiri aðstoð. Við getum lært af þeim sem standa vel og aðstoðað þá sem standa aftar, og greint betur hvað er að virka og hvað er ekki að virka. 

Hins vegar snýst þetta um að tryggja börnum jafnræði, þegar tekið er inn í framhaldsskóla og plássin eru færri en umsækjendurnir, að það sé gert á grundvelli færni barnsins, þannig að nemendur sem ljúka grunnskóla njóti jafnræðis þegar þeir sækja um framhaldsskólavist.“

Lokamat við lok grunnskólastiganna 

Hann telur nokkuð einfalt að breyta því fyrirkomulagi sem nú hefur verið boðað.

„Núna er lagt til að skyldubundið mat fari fram í íslensku og stærðfræði í 4., 6. og 9. bekk. Okkur fyndist fara betur á því að þetta mat færi fram í 4., 7. og 10. bekk, því þá færðu líka mat við lok hvers skólastigs inni í grunnskólanum.

Til dæmis ef börn færast á milli skóla eða eru að byrja í nýjum skóla á unglingastigi, þá færðu þarna mælingu á færni nemandans við upphaf og lok vistar í hvorum skóla fyrir sig. Þetta er hluti af þessum árangursmælikvörðum sem við erum að tala fyrir, þeir þurfa þá að ná yfir allt starfið.“

Hann kveðst fagna valkvæða matinu sem sé boðað en tekur fram að það megi ekki koma í staðinn fyrir skyldubundið lokamat.

Einkunnir ósambærilegar

Þá segir hann ekki síður mikilvægt að vera með samræmt mat við lok grunnskólagöngu til að tryggja jafnræði við innritun barna í framhaldsskóla.

Vegna þess að það hefur oft gerst í gegnum árin að sumir framhaldsskólar þurfa að velja á milli nemenda og í dag er það gert á grundvelli skólaeinkunna sem yfirvöld sjálf hafa komist að að eru ósambærilegar.“

Prófin eiga að meta grunnfærni

Spurður út í gagnrýni Magnúsar um að lokamat í grunnskólum myndi leiða til þess að öllum börnum yrði steypt í sama mót segir Björn Brynjúlfur:

„Prófin eiga ekki að prófa allt. Þau eiga að meta grunnfærnina, sem er lesskilningur og reikningur. Það er lágmarkskrafa að nemendur nái þessari grunnfærni.

Við erum hvergi að segja að það eigi ekki að kenna aðra hluti en þessa. En þetta er grunnurinn sem við byggjum allt annað ofan á.

Ef börn ná ekki grunnhæfni í lesskilningi þá er tómt mál að tala um að læra aðra hluti. Við verðum að ná þessum grundvallaratriðum réttum og byggja ofan á þau.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert