Kaupmáttur jókst um 1,9% í fyrra

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 13,6% á síðasta ári.
Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 13,6% á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 13,6% á síðasta ári samanborið við fyrra ár, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum.

Ráðstöfunartekjur á mann námu rúmlega 5,8 milljónum króna árið 2023 og jukust um 10,8% frá fyrra ári. Að teknu tilliti til verðlagsþróunar jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 1,9% á árinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 8,8%.

Stefnt er að því að endanlegar tölur fyrir árið 2023 verði birtar í mars árið 2025, að sögn Hagstofunnar.

Heildartekjur heimilanna jukust um 12,8% árið 2023 samanborið við fyrra ár en þar af jukust launatekjur um 12% og eignatekjur um 27,1%.

Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur jukust um 10,5% sem má að mestu rekja til 19% hækkunar lífeyristekna frá fyrra ári. Tekjutilfærslur frá almannatryggingum jukust einnig um 3,4% og aðrar tekjutilfærslur um 4,3%.

Gjöld heimilanna jukust um 11,7% á árinu 2023 samanborið við fyrra ár en þar af jukust skattar á laun um 11% og vaxtagjöld um 27,3%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert