Rannsókn á andláti 10 ára stúlku sem fannst látin við Krýsuvíkurveg þann 15. september er í fullum gangi og miðar ágætlega að sögn Elínar Agnesar Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.
Maður sem er grunaður um að hafa banað dóttur sinni er í gæsluvarðhaldi til 21. október en hann er sá eini sem hefur stöðu sakbornings. Hann var handtekinn við Krýsuvíkurveg daginn sem lík dóttur hans fannst.
Spurð hvort það myndefni sem lögreglunni barst eftir að hún óskaði eftir því frá vegfarendum sem óku um Krýsuvíkurveg umræddan dag hafi nýst í rannsókninni segir Elín Agnes:
„Það hefur verið skoðað sem og allar ábendingar og tilkynningar sem við höfum fengið. Þau gögn sem berast eru skoðuð með tilliti til þess hvort þau geti varðað rannsóknina eða ekki.“
Hún segir að það sé komin þokkaleg mynd af því sem gerðist en rannsóknin sé ennþá í fullum gangi og verið sé að fara yfir öll gögn í málinu,“ segir Elín Agnes.
Gæsluvarðhald yfir þeim grunaða var framlengt í síðasta mánuði til 21. október á grundvelli almannahagsmuna. Yfirheyrslur og skýrslutökur á honum hafa staðið yfir með hléum að sögn Elínar.
Spurð hvort maðurinn hafi gengist undir geðmat segir Elín að það sé gert í svona málum en hvort því sé algjörlega lokið og hvort komin sé niðurstaða úr því hafi hún ekki vissu um.