Tjón hefur orðið á tækjum vegna rafmagnsbilana í Mývatnssveit í dag. Rarik biðlar til íbúa að tilkynna tjón og truflanir en einhverjar rafmagnstöflur hafa brunnið.
Eins og fram hefur komið gætti rafmagnsleysis víða á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum í dag.
En í Mývatnssveit var sagan önnur, þar sem rafmagn leysti ekki alveg út heldur jókst álagið á rafmagnskerfið með tilheyrandi tjóni.
„Það varð eitthvað tjón á heimilistækjum og fleira. Síðast þegar ég gáði var ekki mikið af tjónatilkynningum komið inn. Það er eitthvað rafmagnsleysi þar enn þá,“ segir Rósant Guðmundsson, samskiptastjóri Rarik, í samtali við mbl.is.
Rósant segir enn ekki ljóst hvers vegna rafmagnið sló ekki út í Mývatnssveit, greiningarvinna sé enn í gangi.
„Við erum að senda út verktaka til viðskiptavina sem hafa látið okkur vita. Það hafa brunnið töflurnar og eitthvað svo líkt,“ segir Rósant.
Bilunin olli einnig tjóni í Jarðböðunum við Mývatn og rafmagn sló út í um klukkutíma.
„Það kom í ljós þegar [rafmagnið] kom aftur inn að það hafði eitthvað af tækjum og búnaði bilað hjá okkur,“ segir Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdastjóri Jarðbaðanna.
Ein stór iðnaðarþvottavél sé biluð og hitastýring í húsnæði hafi bilað og ljósastýring.
Tjónið hefur samt ekki ákafleg áhrif á starfsemina og böðin opna á morgun eins og að venju.
„Smá óþægindi varðandi þetta, en allt er svona í lagi.“
Enn er ekki ljóst hvað hefur valdið rafmagnsleysinu mikla en fram hefur komið að það eigi upptök sín á Vesturlandi. Nánar tiltekið sló út við reglubundið viðhald í verksmiðju Norðuráls á Grundartanga.
Áætlað er að ríflega 15.500 heimili og fyrirtæki hafi verið á meðal þeirra viðskiptavina RARIK sem urðu fyrir áhrifum rafmagnsleysis og truflana fyrr í dag.
Rafmagnsleysið verður tekið til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í næstu viku, að sögn nefndarformanns.