„Starfsfólkið er slegið en það er fyrir mestu að enginn skyldi slasast eða láta lífið í svona atburði. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“
Þetta segir Rúnar Vilhjálmsson, annar eigenda tannlæknastofunnar Krýnu við Fellsmúla, þar sem eldur kviknaði í nótt.
Búast má við því að stofan verði lokuð í einhverja daga og hugsanlega vikur vegna eldsvoðans, að sögn Rúnars en hún er á fimmtu hæð hússins.
Hann segir að töluvert tjón hafi orðið á húsnæðinu, bæði af völdum elds og reyks en sjálfur hefur hann ekki farið þangað inn vegna rannsóknar lögreglunnar. Einnig varð vatnstjón eftir að rör fór í sundur. Hann kveðst ekkert vita um upptök eldsins.
Í febrúar síðastliðnum varð mikill eldsvoði í Fellsmúla.
„Það var við hliðina á okkur. Þá sluppum við mjög vel og engar skemmdir, þannig, hjá okkur þá,“ segir Rúnar, sem vonast til að geta opnað stofuna aftur sem allra fyrst.