Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fylgist náið með rafmagnsleysinu sem nær yfir um helming landsins. Hann segir þetta vera birtingarmynd þess að styrkja þurfi flutningskerfið.
Hann segir aðspurður ekki ásættanlegt að bilun komi upp á einum stað sem valdi því að hálft landið slái út.
„Þetta er birtingarmynd þess að við þurfum að styrkja kerfið okkar og það er það sem við erum að gera. Við getum ekki reitt okkur á neina aðra en okkur sjálfa þegar kemur að orkuöryggi og byggðalínan okkar er ekki nægilega sterk og þess vegna er Landsnet með þessar miklu áætlanir um uppbyggingu á því,“ segir Guðlaugur í samtali við mbl.is.
Rafmagnsleysið nær frá Vestfjörðum, yfir Norðurland og alla Austfirði. Unnið er að því að koma kerfinu upp aftur.
Hann segir ekki nóg að hafa hluti á áætlun. Sveitarfélög og hagaðilar þurfi að vinna með Landsneti við uppbyggingu.
„Við erum byrjuð á Suðurnesjalínu 2 en þær línur sem við þurfum að byggja sem fyrst, það dugar ekki bara að Landsnet sé tilbúið í það, það þarf líka samvinnu frá öllum sveitarfélögum sem um ræðir og öðrum hagaðilum,” segir Guðlaugur.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sagði í samtali við mbl.is að eitthvað hafi komið upp í Norðuráli sem olli því að högg kom á flutningskerfið.
Það er varla ásættanlegt að bilun komi upp hjá Norðuráli og hálft landið slær út?
„Nei, þetta er auðvitað ekki ásættanlegt en þetta er birtingarmynd þess að við erum ekki með nægilega sterk kerfi. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á og settar fram áætlanir um uppbyggingu á kerfinu fyrir 88 milljarða. Því fyrr sem við klárum það því betra, en það er á fimm ára áætlun hjá fyrirtækinu.“
„Þetta sýnir bara það að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Það eru allir landsmenn alltaf undir og í þessu tilfelli, þessi hluti landsins,“ segir Guðlaugur.