„Þetta getur ekki verið eðlilegt“

„Þetta er stórt öryggismál,“ segir formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis …
„Þetta er stórt öryggismál,“ segir formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í samtali við mbl.is. mbl.is/Þorsteinn

Rafmagnsleysi dagsins í dag verður tekið til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í næstu viku, að sögn nefndarformanns.

Rafmagn sló út á rúmlega hálfu landinu í dag, nánar tiltekið á Austurlandi, Norðurlandi og stórum hluta Vestfjarða. Þá hafði slegið út hjá Norðuráli á Grundartanga sem olli síðan truflunum í flutningskerfum Landsnets og Rariks.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, lagði til í morgun að málið yrði tekið til umfjöllunar í nefndinni.

Rafmagnsleysið náði einnig til Vestfjarða, þó þeir séu ekki merktir …
Rafmagnsleysið náði einnig til Vestfjarða, þó þeir séu ekki merktir inn á kortið. Kort/mbl.is

Stórt öryggismál

Bjarni Jónsson nefndarformaður hefur orðið við þeirri beiðni og gerir ráð fyrir að málið verði tekið fyrir á fundi nefndarinnar næsta þriðjudag.

„Þetta er stórt öryggismál,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is. „Þetta getur ekki verið eðlilegt í ljósi þess að það er búið að ráðast í mjög miklar umbætur á dreifikerfinu síðustu misseri. Þess vegna kemur þetta mjög á óvart.“

Hann segist þurfa að fá útskýringu á því hvers vegna rafmagnið hafi slegið út.

„Þessu fylgir töluvert óöryggi fyrir fólk og fyrirtæki. Þetta er bara eitthvað sem er ekki hægt að sætta sig við,“ segir hann, og nefnir í því samhengi að ljós hafi slegið út í Vaðlaheiðagöngum auk þess sem að hætta geti skapast gagnvart fjarskiptaöryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert