Annir hjá lögreglu: 50 mál í dag

Lögreglan sinnti ýmsum útköllum í dag.
Lögreglan sinnti ýmsum útköllum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miklar annir voru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Alls voru 50 mál bókuð í kerfi lögreglunnar á milli klukkan 05.00 og 17.00. Einn gistir nú í fangaklefa.

Að því er fram kemur í dagbók lögreglu sinnti lögregla þó nokkrum útköllum vegna tilkynninga um þjófnað og innbrot m.a. í verslunum og á vinnusvæði í borginni.

Tilkynnt var um aðila sem gekk á milli bifreiða og reyndi að opna bílhurðir en lögreglu tókst ekki að hafa uppi á viðkomandi.

Þá var einnig óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar og er málið nú til rannsóknar. Segir í dagbók lögreglu að minni háttar áverkar hafi hlotist af árásinni.

Var lögregla einnig kölluð út oftar en einu sinni til að vísa óvelkomnum aðilum á brott og er annar þeirra sá er gistir í fangageymslu sökum ástands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert