„Þetta er náttúrulega svolítið flóð og skemmdi veginn,“ segir Guðmundur Guðbrandsson, bóndi á Bergsstöðum, um aurskriðu sem féll fyrr í dag á Svartárdalsveg.
Guðmundur var staddur á Akureyri er blaðamaður mbl.is náði tali af honum og segir hann að þegar hann hafi farið að heiman í dag hafi verið búið að hreinsa hluta skriðunnar af veginum.
Þá hafi komið í ljós að vegurinn væri í sundur.
„Þannig það gæti verið eitthvert skarð í honum og það þarf bara að keyra efni í það til þess að geta opnað veginn.“
Segir hann Vegagerðina hafa verið á leiðinni þegar hann hafi farið um 11:00 leytið og gerir hann ráð fyrir að vinna sé því hafin við að lagfæra veginn.
„Öll heimilin þarna fyrir innan hjá mér eru innilokuð. Það eru einhver 6-7 heimili,“ segir Guðmundur.
Nefnir hann að hægt sé þó að komast á jeppa upp á heiði eða fara veginn yfir Kiðaskarð en það sé ekki fljótfarið.
„Ég myndi kannski ekki ráðleggja fólki að fara á fólksbíl,“ bætir bóndinn við.
Aðspurður segist hann óviss um hvort kindur gætu mögulega hafi orðið undir aurskriðunni.
„Þetta er þannig staður að það eru oft kindur þar og ég veit ekki hvort þær hafi lent undir. En það eru mjög oft kindur á þessum slóðum.“
Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofunnar, segir að búið sé að vera ansi blautt á norðanverðu landinu síðustu daga og svo virðist vera sem stallurinn fyrir ofan veginn hafi dregið ansi mikinn raka í sig.
„Þannig það hefur örugglega verið að safnast upp þarna svolítið mikið vatn í gegnum tíðina og svo að endingu bara hleypur þetta fram. Það er svo ofboðslega erfitt að spá fyrir um hvar slíkt getur átt sér stað.“
Segir hann skriðuna vera býsna stóra miðað við staðsetningu og grunar hann að stallurinn gæti hafa verið óstöðugur í einhvern tíma.
Þá segir hann dreifingu skriðunnar og hve mikið vatn sést í rás hennar benda til þess að skriðan hafi hlaupið fram á miklum hraða.
„Hún hefur bara hlaupið fram af miklum hraða sem hefur orðið þess valdandi að vegurinn rofnaði.“