Andrés Magnússon
Afar ólíklegt er að byrlunarmálinu svonefnda sé lokið, þó að lögregla á Norðurlandi eystra hafi fallið frá rannsókn þess. Erfitt sé að sjá hvernig ríkissaksóknari komist hjá því að láta taka málið upp á ný.
Þetta segir Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, sem er í viðtali í Dagmálum, netstreymi Morgunblaðsins, sem opið er öllum áskrifendum.
Þar fyrir utan eigi brotaþoli allan kost á því að höfða einkamál til þess að leita réttar síns, hugsanlega gegn Ríkisútvarpinu, en einnig komi til álita að höfða mál gegn Þóru Arnórsdóttur, þáv. ritstjóra Kveiks.
Af yfirlýsingu lögreglu virðist sem Þóra hafi veitt viðtöku síma sem stolið var af manni á sjúkrahúsi eftir byrlun, en efni af honum rataði síðar til annarra fjölmiðla sem gerðu sér mat úr því.
Sigurður telur að umfjöllun um málið hafi verið afvegaleidd, en það sé flókið og grafalvarlegt, bæði sem sakamál og einnig hvað varðar þátt fjölmiðla og fréttamanna.
Jafnframt telur hann lögreglurannsóknina gallaða að ýmsu leyti, en vegna seinagangs hafi ýmis sakargögn spillst. Vafi um ásetning og sakhæfi ætti engu að breyta um framgang hennar, ekki frekar en óvissa um hvaða starfsmaður Ríkisútvarpsins hafi gert hvað, liggi hlutdeild þeirra fyrir.