Efling samdi við SFV

Eflingarfólk glatt í bragði að lokinni undirrituninni.
Eflingarfólk glatt í bragði að lokinni undirrituninni. Ljósmynd/Aðsend

Samninganefnd Eflingar undirritaði í nótt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), sem tekur til á þriðja þúsund Eflingarfélaga á hjúkrunarheimilum og sambærilegum stofnunum á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.

Samningurinn gildir frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 og nær því yfir fjögurra ára samningstíma, þar af sex mánuði afturvirka frá undirritun.

Ljósmynd/Aðsend

„Meginkrafa samninganefndar Eflingar í viðræðum við SFV var að tekið yrði á mönnunarvanda hjúkrunarheimila. Þessi vandi er rækilega staðfestur í tölulegum gögnum, til að mynda í skýrslu starfshóps undir forystu Gylfa Magnússonar sem út kom árið 2021. Jafnframt endurspegla frásagnir Eflingarfélaga af óboðlegri fáliðun og streitu á hjúkrunarheimilum þennan veruleika,“ segir í tilkynningu.

Ljósmynd/Aðsend

„Eflingar fagnar því innilega að nýundirrituðum samningi fylgir samkomulag við stjórnvöld sem tekur á mönnunarvandanum. Samkvæmt þessu samkomulagi skulu fjármagnaðar og tímasettar lausnir á manneklu hjúkrunarheimilanna liggja fyrir af hálfu heilbrigðis- og fjármálaráðuneytanna eigi síðar en 1. apríl 2025. Takist það ekki er Eflingu heimilt að segja upp samningnum með eins mánaðar fyrirvara þann 1. maí 2025.“

Fram kemur að mikið gleðiefni sé að tekist hafi að fá stjórnvöld að borðinu til að taka á þessum vanda, sem augljóslega varði ekki aðeins Eflingarfélaga heldur sé um að ræða gríðarstórt hagsmunamál íbúa, aðstandenda og fagfólks á íslenskum hjúkrunarheimilum.

Sólveig Anna, formaður Eflingar, í broddi fylkingar við mótmæli.
Sólveig Anna, formaður Eflingar, í broddi fylkingar við mótmæli. Eggert Jóhannesson

Þetta er í fyrsta skipti sem Efling gerir sjálfstæðan kjarasamning fyrir hönd starfsfólks á hjúkrunarheimilum. Kjarasamningar þessa hóps hafa á síðustu áratugum ávallt fylgt sjálfkrafa samningi Eflingar við ríkið. Í samræmi við aðferðafræði Eflingar á síðustu árum leiddi virk samninganefnd Eflingarfélaga viðræðurnar frá upphafi til enda.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert