„Ég er nakin með fólk allt í kringum mig“

Erna þríbrotnaði á ökkla og sköflungi í síðustu viku.
Erna þríbrotnaði á ökkla og sköflungi í síðustu viku. Samsett mynd

Erna Guðmundsdóttir mátti gjöra svo vel að dúsa í yfir 36 klukkutíma á göngum Landspítalans í vikunni, bæði fyrir og eftir aðgerð sem hún fór í vegna sköflungs- og ökklabrots, þar sem beinin voru negld saman.

Á tímabili var hún mjög berskjölduð, lá hálfnakin í opnu rými og átti að pissa fyrir framan ókunnugt fólk, meðal annars aðstandendur annarra sjúklinga. Hún fékk ekki stofu fyrr en hún „tók trylling“ á starfsfólkið eins og hún orðar það, örmagna af þreytu eftir að hafa ekki sofið dögum saman. Kornið sem fyllti mælinn var þegar átti að láta hana pissa fyrir opnum tjöldum í annað sinn.

Það er reyndar komin rúm vika síðan Erna brotnaði illa og hefur reynsla hennar af þjónustu í heilbrigðiskerfinu á þessum tíma verið vægast sagt skelfileg. Hún tekur þó fram að ekki sé við starfsfólkið á Landspítalanum að sakast. Það sé að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum, en kerfið sé augljóslega löngu sprungið.

Átti að pissa fyrir framan fólk á ganginum

Nú síðast kom Erna inn á bráðamóttökuna á þriðjudagsmorgun vegna gruns um blóðtappa og stóð þá til að hún færi í rannsóknir. Blaðamaður var í sambandi við hana upp úr hádegi þann dag vegna Facebook-færslu þar sem hún gagnrýndi bæði aðstöðuna á bráðamóttökunni og úrræðaleysi gagnvart sjúklingum í erfiðri stöðu.

Við náðum ekki að klára það samtal og þegar blaðamaður heyrði næst í Ernu síðdegis á miðvikudag hafði ýmislegt fleira gerst sem bætti svo sannarlega ekki upplifun hennar. Þá lá hún inni á setustofu aðstandenda á bæklunardeildinni í Fossvogi. „Ég er nakin með fólk allt í kringum mig,“ sagði Erna til að lýsa stöðunni, en þá var aðgerðin afstaðin. Þriðjudagurinn fór að miklu leyti í bið á göngum og segist hún til að mynda hafa gleymst í sjö klukkutíma án bjöllu, þannig hún gat ekki kallað eftir aðstoð. Aðstöðuleysið var algjört, að hennar mati.

 „Í nótt þegar ég þurfti að pissa, þá átti ég bara að pissa í rúminu mínu í bekken, á ganginum á slysavarðstofunni, en ég harðneitaði. Það endaði þannig að ég kom með þá hugmynd, af því að það var ekkert salerni laust í fleiri tíma, að við færum í sjúkrabílaskýlið. Við gerðum það og þar pissaði ég, svo ég væri ekki að pissa fyrir framan fullt af ókunnugu fólki,“ sagði Erna í samtali við mbl.is á miðvikudag. 

Ekkert hvílst í átta daga

Hún fór í aðgerð þann dag en um kvöldmatarleytið hafði hún enn ekkert heyrt frá lækni um hvernig hefði gengið.

„Ég hef ekki fengið að heyra í neinum lækni eftir þessa aðgerð svo að ég veit ekki hvað aðgerðin var löng. Mér skilst samt að hún hafi verið þrír klukkutímar, þó að ég hafi ekkert fyrir mér í því.“

Spurð hvort hún hafi eitthvað náð að hvílast við þessar erfiðu aðstæður svarar Erna því neitandi. Hún hafi í raun ekkert hvílst frá því að hún slasaðist.

„Nei, ég hef ekkert náð að hvílast og þegar ég tók trylling inni á setustofunni til að fá að pissa í friði var ég að reyna að útskýra að ég væri ekki búin að hvílast í átta daga,“ sagði Erna, en þegar samtali okkar lauk á miðvikudag var hún loksins komin inn á stofu.

„Nei sko, ég er í sjokki – Í sjokki!“ 

En víkjum að færslu Ernu og innihaldi hennar sem blaðamaður ætlaði upphaflega að fjalla um. Færsluna skrifaði hún þegar hún kom heim af bráðamóttökunni á aðfaranótt þriðjudags, eftir að hafa beðið þar sárkvalin eftir niðurstöðum úr blóðprufu sem hún fór í til að útiloka blóðtappa. Þær skiluðu sér hins vegar ekki fyrr en mörgum klukkutímum eftir áætlaðan tíma.

„Nei sko, ég er í sjokki - Í sjokki!“ skrifaði Erna í færslunni þegar hún kom heim þessa nótt án þess að hafa fengið niðurstöður úr blóðprufunni. Niðurstöðurnar lágu fyrir á þriðjudagsmorgun og þar sem þær komu ekki nógu vel út var hún kölluð aftur á bráðamóttökuna til frekari rannsókna, sem leiddi svo að þeirri atburðarás sem lýst var hér að ofan. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Send heim sárkvalin á hækjum og án baklands

Þegar Erna brotnaði í síðustu viku var strax ljóst að negla þyrfti beinin saman svo að þau myndu gróa rétt. Þá var henni sagt að hún kæmist væntanlega í aðgerð um helgina, sem varð svo ekki raunin, en hún var send heim með verkjalyf.

Erna er einstæð með tvö lítil börn, svo að það eitt og sér að brotna svona illa setti hana í mjög erfiða stöðu. Barnsfeður hennar hafa sem betur fer getað sinnt börnunum, en hún hefur verið ein heima og að miklu leyti án aðstoðar og stuðnings.

„Ég hef ekkert bakland, engan stuðning og ég er send heim hoppandi á hækjum í lyftulausu blokkina mína, á einkabíl og sagt að ég geti ekki fengið innlögn vegna félagslegra aðstæðna og komist ekki að á sjúkrahótelinu því það sé uppbókað. Ég veit að ökklabrot eiga ekki að bíða lengur en í viku samt er núna liðin vika og það veit bara enginn hvenær ég kemst að,“ sagði Erna í samtali við mbl.is á þriðjudag. Þá var enn ekki komin dagsetning á aðgerð.

Rifust um hvað átti að gera við hana

Á mánudag versnaði staðan enn frekar þegar verkjalyfin virtust skyndilega hætta að virka. Hafði hún því samband við heilsugæsluna, sem vildi að hún færi tafarlaust upp á bráðamóttöku til að útiloka blóðtappa, en hún er í áhættuhópi fyrir þeim kvilla.

„Flott, þrífótbrotna ég, sárverkjuð í lyftulausu blokkinni minni hringi í sjúkrabíl til að flytja mig niður á slysó. - Það var ævintýri að koma mér niður stigann heima og út. Við sjúkraflutningafólkið tókum nokkrum sinnum á leiðinni pásur til að taka cost/benefit analysis,“ skrifar Erna í færslunni.

„Á leiðinni niður eftir á spítalann hlusta ég á sjúkraflutningamanninn og starfsmann slysamóttökunnar hálf rífast um hvað eigi að gera við mig. Starfsmaður slysamóttökunnar endurtekur þrisvar „það er neyðarástand hér. Þú skilur að hér ríkir neyðarástand, ef þú kemur með hana þá þarf hún að sitja á biðstofunni á stól. Við eigum ekkert annað.““

Skárra að bíða en deyja úr blóðtappa

Erna segir þetta ekki hafa verið sérlega upplífgandi að heyra og sá ekki fyrir sér hvernig hún átti að geta setið í lengri tíma á stól með mölbrotinn fót. Hún fann svo miklu meira til sitjandi en liggjandi. Metið hennar í setu kvöldið áður var um það bil fjórar mínútur, að hennar sögn.

„Ég veit samt að ég er almennt í áhættuhópum fyrir blóðtappa, ég hef verið sett á blóðþynningu í rúmlegum áður, svo ég hugsaði að það væri nú betra að reyna að þrauka á biðstofunni í stað þess að deyja úr blóðtappa seinna,“ segir í færslunni.

„Það sem tók við mér á spítalanum var svo sjokkerandi að ég á eiginlega ekki til orð. Biðstofan var pökkuð af fólki í allskonar ásigkomulagi- Trust me, mér fannst ég vera langminnst veik.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gafst upp eftir tvo tíma

Hún var færð af sjúkrabörunum yfir á biðstofustól þar sem hjúkrunarfræðingur fékk hjá henni alla forsögu málsins. Var sú ansi hissa á ekki væri enn búið að festa niður dag fyrir aðgerð á fætinum. Í kjölfarið fékk Erna morfín í æð sem virkaði ekki og var hún því jafn kvalin og áður.

Blóðprufa var tekin og henni tjáð að niðurstöður kæmu eftir um það bil 40 mínútur. Sú varð þó ekki raunin og um miðnætti, eftir tveggja tíma bið, treysti Erna sér ekki til að sitja lengur bráðamóttökunni, þó að hún væri hvött til að bíða eftir niðurstöðunum.

Hún var þá svo heppin að geta farið heim til ömmu sinnar sem býr í blokk þar sem er lyfta og þurfti hún því ekki að brölta upp stigana heima hjá sér um nóttina.

Sagt að þetta væri eðlilegt ástand

Klukkan hálf sjö á þriðjudagsmorgun skrifaði hún umrædda færslu á Facebook, þar sem hún sagðist vera alveg jafn þjáð og að fóturinn væri stöðugt að bólgna meira. Þá voru niðurstöður úr blóðprufunni enn ekki komnar.

„Mér líður eins og ég hafi hætt í skurðstofusamkvæmisleiknum og fært mig yfir í „er ég að deyja?“ - leikinn. Það eina sem ég get gert til að fá aðstoð er að fara á slysó en slysó bókstaflega getur ekki tekið við mér og hvað þá?“ skrifaði hún.

Erna segist þó hafa reynt að setja málið í stærra samhengi og hugsa þannig að þó að blóðtappi gæti verið lífshættulegur væri bráðamóttakan full af fólki sem væri í verra ástandi. Hún yrði því bara að bíða róleg.

„Hversu klikkað er það samt að heilbrigðiskerfið sé bara svona sprungið? Samkvæmt því starfsfólki sem ég spjallaði við, er þetta liggur við bara normið frekar en undantekning. Hversu mikið meira lasið fólk en ég gefst upp á bið í ómennskum aðstæðum og fer heim til að versna?“ skrifaði Erna jafnframt.

Niðurstöður úr blóðprufunni komu loksins um hálf áttaleytið á þriðjudagsmorgun og eins og áður sagði voru þær þannig að þörf var á frekari rannsóknum. Ef Erna hefði hins vegar beðið eftir niðurstöðunum, eins og hún var hvött til, hefði hún setið alla nóttina á bráðamóttökunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka