Annasamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag, einkum í útköllum tengdum umferðaróhöppum.
Var lögregla í tvígang kölluð út vegna ákeyrslu á fótgangandi börn, en um er að ræða tvö ótengd atvik.
Annað atvikið var tilkynnt til lögreglustöðvar 4, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, þar sem ökumaður bifreiðar ók á ungan dreng. Hlaut drengurinn áverka á fæti og var í kjölfarið fluttur til skoðunar á sjúkrahús.
Lögregla gerði viðeigandi ráðstafanir í kjölfarið þar sem óskað var eftir því að öryggi yrði bætt á gatnamótunum þar sem slysið varð.
Átti svipað atvik sér stað í umdæmi lögreglustöðvar 2, sem sinnir störfum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Var þar einnig ekið á ungan dreng en að sögn tilkynnanda voru áverkar drengsins minni háttar.
Var einnig tilkynnt um umferðaróhapp þar sem tjónvaldur ók af vettvangi án þess að grípa til viðeigandi ráðstafana. Hafði lögregla upp á viðkomandi skömmu síðar og var málið afgreitt á vettvangi.
Annar ökumaður var stöðvaður við akstur vegna gruns um akstur undir áhrifum og án ökuréttinda. Voru skráningarmerki ökutækisins fjarlægð þar sem ekki hafði verið staðið við skil á tryggingum. Ökumaðurinn var látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.
Lögregla minnir bílstjóra á að gæta betur að akstri í minnkandi dagsbirtu á morgnana og seinnipart dags. Við slíkar aðstæður séu auknar líkur á að ökumenn sjái gangandi vegfarendur illa t.d. þegar börn eru á leið til skóla á morgnana.