Eldur sem kviknaði í bensínbifreið á Reykjanesbrautinni á þriðja tímanum í dag virðist hafa komið upp sökum vélarbilunar.
Þetta segir Bjarni Rúnar Rafnsson, varðstjóri Brunavarna Suðurnesja.
Upplýsir hann þá einnig að tveir aðilar hafi verið í bílnum, en í fyrstu var talið að ökumaðurinn hafi verið einn í bílnum.
„Fólkið var bara að keyra bílinn og þá kviknaði vélarljósið. Það stöðvaði bílinn og þá var kominn eldur í vélarhúsinu,“ segir varðstjórinn.
Hann segir að fólkið hafi náð að koma sér úr bílnum án vandræða og engan hafi sakað.
Skamman tíma tók að ráða niðurlögum eldsins. Lögreglu tók við vettvanginum eftir að Brunavarnir höfðu slökkt eldinn og hreinsað til.
Þá hafi bíllinn mjög fljótlega verið fjarlægður og Reykjanesbrautin opnuð um það leyti sem slökkviliðsmenn keyrðu burt, sem var um 16.00 leytið.