Hátt í 80 tilkynningar borist um tjón

Háspennulínur.
Háspennulínur. Mynd úr safni.

Rósant Guðmundsson, samskiptastjóri hjá RARIK, segir að fyrirtækinu hafi borist hátt í 80 tilkynningar um tjón af völdum víðtækra rafmagnstruflana sem áttu sér stað í gær.

Rósant segir að flestar tilkynningarnar hafi borist úr Mývatnsveit en þar varð mikil truflun á spennu.

Í Mývatnssveit varð ekki útleysing sem olli því að höggið úr kerfinu barst alla leið til viðskiptavina og er það ástæða þess að tjón urðu á því svæði.

„Þetta einskorðast svolítið við þetta svæði. Það varð ekki útleysing þar og það er eitthvað sem við erum að greina. Þetta var talsvert umfang enda var þetta mikið högg á kerfið eftir þessa útleysingu hjá álverinu,“ segir Rósant.

Vanda sig og gefa sér góðan tíma

Rósant segir að tjónið sé allskonar og nefnir í því sambandi tölvur, hleðslutæki, kæliskápa, þvottavélar, varmadælur, helluborð, ofna, eldavélar, kaffivélar og fleiri heimilistæki. Hann segir að flestar tjónstilkynningar hafi borist frá heimilum en líka frá fyrirtækjum. 

„Við viljum biðja fólk um að vanda sig vel og gefa sér góðan tíma til að taka saman það tjón sem það hefur orðið fyrir og hafa samband við RARIK. Við erum á tánum og reynum að bregðast fljótt og vel við.“

RARIK hvetur viðskiptavini sína sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum rafmagnstruflana að senda inn tilkynningu á vef RARIK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert