Hraðakstur, slys og umferðaróhöpp á Suðurlandi

Sá er ók hraðast var á 165 km/klst á Suðurlandsvegi …
Sá er ók hraðast var á 165 km/klst á Suðurlandsvegi og á yfir höfði sér háa sekt og sviptingu ökuréttar. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson/Sigurður Bogi Sævarsson

Síðustu tvo sólarhringa hafa fimm ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurlandi.

Frá þessu greinir Lögreglan á Suðurlandi í tilkynningu á Facebook-reikningi sínum í kvöld.

Sá er ók hraðast var á 165 km/klst á Suðurlandsvegi, vestan við Hellu og á sá hinn sami yfir höfði sér háa sekt og sviptingu ökuréttar. Var annar ökumaður stöðvaður án tilskilinna réttinda til aksturs og annar til var stöðvaður, grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Tvö slys og fjögur umferðaróhöpp

Umferðareftirlit lögreglunnar stöðvaði einnig tvo ökumenn atvinnutækja, þar sem ekið var án ökumannskorts í ökurita.

Voru fjögur umferðaróhöpp einnig skráð en í einu þeirra var um að ræða tveggja bíla árekstur skammt vestan við Selfoss og þörfnuðust aðilar beggja bifreiða aðhlynningar á heilbrigðisstofnun í kjölfarið.

Auk umferðarslysa voru tvö slys tilkynnt en í öðru tilfellinu féll ferðamaður af steini við Seljalandsfoss og í hinu tilfellinu féll einstaklingur af þaki húss í Rangárþingi. Báðir einstaklingar þurftu á aðhlynningu að halda á heilbrigðisstofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert