Hvassahraun óráð á óróatímabili

Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur skrifar um flugvallarmál á Facebook og …
Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur skrifar um flugvallarmál á Facebook og viðrar þau við mbl.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Ef maður hugsar út í að meirihlutinn af sjúkraflugi er ekki með þyrlum, heldur venjulegum vængjavélum, og er að nálgast þúsund flug á ári til Reykjavíkur gefur það auga leið að það skiptir verulegu máli hvort þessir flutningar geti farið fram þannig að sjúkrahúsið sé mjög nærhendis, eða að leggja þetta í korters-þrjátíu mínútna akstur utan af Reykjanesskaga.“

Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is um pistil sem hann ritar á Facebook-síðu sína um staðsetningu innanlandsflugvallar og teflir þar fram ýmsum rökum gegn innanlandsflugvelli í Hvassahrauni.

„Mér finnst einboðið að á meðan ekki er öðruvísi að þessu staðið þurfi að horfa mjög stíft á þennan þátt. Allir vita að þessar stóru þyrlur hafa sitt lendingarpláss þarna við nýja skýlið við Nauthólsvík, en það verður ekki venjuleg sjúkraþyrla til reiðu né þyrlupallur á sjúkrahúsinu sjálfu,“ heldur Ari Trausti áfram og vísar til nýja Landspítalans.

Stutt í Trölladyngjukerfið

Á Facebook skrifar hann meðal annars í pistli sínum að tuga milljarða flugvallarframkvæmd sé til að minnsta kosti hundrað ára. Hraðlest í fimmtán kílómetra jarðgöngum áleiðis til Keflavíkur, sem sé afar dýr, enda fyrir mun stærra samfélag, leysi Reykjavík ekki undan því að vera endastöð ótal tilefna til hraðra samgangna frá og til stækkandi landsbyggðar og öruggrar heilbrigðisþjónustu.

Ari Trausti kemur vitanlega inn á jarðfræði svæðisins, eins og bakgrunnur hans gefur tilefni til, og segir við mbl.is að þótt eldsuppkoma á þeim slóðum, sem rætt er um flugvöll á, sé nánast útilokuð sé stutt í eldstöðvarkerfi sem virkt var á miðöldum.

„Hraunið undir álverinu er jú frá þessum miðaldaeldum sem þá voru, þessu svokallaða Trölladyngju- eða Krýsuvíkureldstöðvakerfi. Það er alveg ljóst að við getum aldrei tryggt lengd eldgosa fyrir fram,“ segir jarðeðlisfræðingurinn, þótt líkur séu á litlum gosum séu það aðeins líkur.

Völlurinn skuli vera þar sem hann er

„Mér finnst það mjög óábyrgt þegar við erum komin með þetta óróatímabil, sem nú er komið í gang, að taka sénsinn og byrja á tugmilljarða framkvæmdum þegar við höfum ekki glóru um hvernig þetta óróatímabil mun fara,“ segir Ari Trausti.

Þú vilt halda Reykjavíkurflugvelli?

„Já, ég myndi vilja halda honum til streitu, fyrst og fremst sem innanlandsflugvelli og ég gæti alveg séð fyrir mér að breytingar á honum væru þannig gerðar að hann væri ekki lengur varaflugvöllur nema fyrir ákveðnar tegundir flugvéla. Nú er verið að skala varaflugvallarhlutverið upp á Egilsstöðum og Akureyri svo við komumst alveg af með það á næstu áratugum, að minnsta kosti þar til við vitum hvernig þetta fer á Reykjanesskaga,“ svarar hann.

Að lokum segir hann Reykjavíkurflugvöll í sínum augum vera þann stað sem landsmenn eigi heimtingu á að sé nálægt eða innan borgarmarkanna „og þá á þessi flugvöllur, þótt hann verði snikkaður eitthvað til, að vera þar sem hann er“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert