Landsréttur staðfestir nauðgunardóm

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur staðfesti í dag tveggja og hálfs árs langan fangelsisdóm yfir Arnari Birni Gíslasyni, 26 ára karlmanni, fyrir að hafa nauðgað konu í febrúar árið 2022.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 13. nóvember í fyrra þar sem Arnar var ákærður fyrir að hafa með ofbeldi og ólögmætri nauðung, haft samræði og önnur kynferðismök við konu sem hann gisti hjá.

Segir í dómi héraðsdóms að Arnar hafi stungið fingrum sínum ítrekað í leggöng konunnar, lagst ofan á hana, haldið henni niðri, haft við hana samræði og klipið hana víðs vegar um líkamann á meðan þessu stóð.

Þá hafi hann engu skeytt þó að konan segði honum ítrekað að hún vildi þetta ekki og bæði hann um að hætta, ýtti hendi hans í burtu og öskraði af sársauka.

Kemur þá fram að konan hafi hlotið roða og marbletti á brjóstum, bringu, ofanverðum upphandleggjum og hægra utanverðu læri og 1 cm langan skurð rétt fyrir utan leggangaop.

Brotið átti sér stað á sunnudagsmorgni, 20. febrúar 2022.

Leitaði konan samdægurs til neyðarmóttöku og var þá lögreglu tilkynnt um málið.

Kynntust á samskiptaforriti

Í skýrslu sem konan gaf í kjölfarið kom fram að hún og Arnar hefðu kynnst 10. febrúar á samskiptaforriti. Þar hafi þau náð vel saman og hittust þau í fyrsta sinn föstudaginn 18. febrúar.

Segir að þau hafi gist saman það kvöld en ekkert kynferðislegt hafi gerst þeirra á milli og mældu þau sér mót aftur kvöldið eftir.

Að sögn konunnar sótti hún Arnar daginn eftir, rétt eftir miðnætti, þar sem hann var ölvaður og gat ekki náð sér í leigubíl. Þau hafi svo farið heim til hennar.

Þar hafi Arnar sagt henni frá því að hann hefði lent í slag eftir að hafa komið illa fram við stelpu og hefði komið í ljós að það var stelpa sem konan þekkti.

Hafi þau næst lagst upp í rúm og spjallað saman þar sem konunni leið illa og var grátandi.

Bað hann ítrekað um að hætta

Þá hafi Arnar reynt að fara með höndina inn á hana. Hún hafi þá ýtt honum burt en hann alltaf reynt aftur.

Kvaðst konan hafa verið í samfestingi með stuttbuxum og nærbuxum innan undir og hafi Arnari tekist að koma vinstri hendi sinni undir hægri buxnaskálm hennar og stungið fingrum sínum í leggöng hennar. Sagði konan það hafa verið mjög sárt og að hún hefði verið með sár í leggöngunum sem hafi sést við skoðun.

Kvaðst hún hafa ítrekað reynt að ýta Arnari af sér og sagt við hann, er hann hóf að klæða sig úr nærbuxunum sínum, að þau væru ekki að fara að sofa saman.

Hann hafi þá engu svarað heldur haft við hana samræði og gert það hratt og harkalega.

Kvaðst konan að hún hafi ítrekað beðið hann um að hætta en að hann hafi engu svarað og hundsað hana. Að lokum hafi hann hætt og látið eins og ekkert hafi í skorist.

Viðurkenndi að hafa verið harkalegur

Kemur einnig fram í dómnum að þegar konan hafi beðið Arnar um að biðjast afsökunar hafi hann gert lítið úr henni með því að apa eftir henni með breyttri rödd. Hann hafi svo farið í símann og hún að sofa með þá von í huga að hann myndi verða farinn er hún vaknaði og svo reyndist vera.

Í skýrslutöku neitaði Arnar ásökununum og sagði samræðið hafa verið með samþykki konunnar. Sagði hann að konan hefði aldrei sagt nei eða að hún hafi ekki viljað þetta.

Viðurkenndi hann að hafa verið harkalegur og að konan hefði stoppað hann af og þar með var kynlífinu lokið.

Sagðist hann þá hafa verið frekar pirrandi uppi í rúmi eftir á þar sem hann m.a. sleikti á henni andlitið og hermdi eftir því sem hún sagði. Þá hafi hann talið að hún væri að grínast þegar hún bað hann um að biðjast afsökunar.

Framburður konunnar stöðugur og trúverðugur

Var það mat héraðsdóms að framburður konunnar hefði verið stöðugur og trúverðugur. Þá fékk framburðurinn einnig stoð í skýrslu neyðarmóttöku og vottorði læknis og hjúkrunarfræðings sem sinntu konunni.

Þá þótti framburður Arnars vera á reiki um atvik, auk þess sem skýringar hans þóttu mjög ótrúverðugar.

Var hann því dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og hefur nú Landsréttur staðfest dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert