Rafmagnstruflanirnar í gær settu víða strik í reikninginn og ekki síst í Mývatnssveit en þar varð mikil truflun á spennu.
Daníel Ellertsson, umsjónarmaður fasteigna hjá Jarðböðunum við Mývatn, segir við mbl.is að ýmislegt tjón hafi orðið á búnaði.
„Hringrásardælur fyrir gólfhita og snjóbræðslu eru bilaðar, þvottavélin er ónýt og spennubreytar fyrir ljós og dimmera fóru úr skorðum,“ segir Daníel.
Daníel segir að einnig hafi orðið skemmdir á háfum fyrir ofan eldavélar í íbúðum við Jarðböðin. Það eigi svo eftir að koma í ljós síðar hvort fleiri tæki bili eftir þessa truflun sem varð á spennunni.
Hann segir að í raun hafi aldrei orðið rafmagnslaust.
„Það varð svakalegt flökt á kerfinu og ég ákvað strax að slá öllu rafmagninu út þegar ég gerði mér grein fyrir því að það væri ekki allt með felldu. Þegar við fréttum af því að rafmagnið væri orðið stöðugt þá hleyptum við straumnum á til að sjá hvað hafði gefið sig,“ segir Davíð en stýribúnaður datt út í böðunum í smá tíma.
Ekki þurfti að loka Jarðböðunum á meðan ástandið varði en Daníel segir að til staðar sé varaafl svo hægt var að afgreiða viðskiptavini.