Ók utan í lögreglubifreið

Lögreglan hafði í nógu að snúast á vaktinni.
Lögreglan hafði í nógu að snúast á vaktinni. Ljósmynd/Colourbox

Tilkynnt var um umferðaróhapp í miðbæ Kópavogs þar sem bifreið var ekið utan í lögreglubifreið sem ók þar samsíða.

Ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis- og/eða annarra vímugjafa. Einhver slys urðu á fólki og er önnur bifreiðin óökufær eftir óhappið.

Tilraun til innbrots

Tveir voru handteknir grunaðir um skemmdarverk og tilraun til innbrots í austurborg Reykjavíkur. Þeir voru vistaðir í fangageymslu uns hægt verður að ræða við þá, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Sextán ára undir stýri

Sextán ára ökumaður var stöðvaður við akstur í Árbænum. Hann var með fullan bíl af farþegum á svipuðum aldri. Allir voru fluttir á lögreglustöð, þangað sem börnin voru sótt af forráðamönnum. Barnavernd var tilkynnt um málið.

Tilkynnt var um að bifreið hefði verði ekið á ljósastaur í hverfi 109 í Breiðholti. Minniháttar slys urðu á fólki en bifreiðin er óökufær.

Tilkynnt var um líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur en ekkert kemur frekar fram um hana í dagbókinni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Grunsamlegar mannaferðir

Tvær tilkynningar bárust um grunsamlegar mannaferðir, annars vegar í hverfi 220 í Hafnarfirði og hins vegar í hverfi 201 í Kópavogi. Manneskjurnar fundust ekki þrátt fyrir leit og greinargóða lýsingu á þeim.

Tilkynnt var um stolna bifreið í miðbæ Reykjavíkur en hún fannst síðan skömmu síðar. Einnig var tilkynnt um að ökumaður hefði stungið af eftir árekstur í hverfi 201 í Kópavogi og er málið í ferli.

Jafnframt barst tilkynning um umferðaróhapp í hverfi 220 í Hafnarfirði. Ökumaður var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert