Segir innviðaráðuneyti engu svara

Hilmar Stefánsson, forstöðumaður stjórnunar almenningssamgangna, segist engin svör hafa fengið …
Hilmar Stefánsson, forstöðumaður stjórnunar almenningssamgangna, segist engin svör hafa fengið frá innviðaráðuneytinu. Samsett mynd/aðsend/mbl.is Kristinn Magnússon

Vegagerðin hefur ekki tekið afstöðu til tilboðs Mýflugs vegna vetrarflugs til Húsavíkur og Vestmannaeyja sökum þess að ekki hefur fengist staðfesting á fjármögnun verkefnisins frá innviðaráðuneytinu.

Að sögn Hilmars Stefánssonar, forstöðumanns stjórnunar almenningssamgangna hjá Vegagerðinni, var Mýflug eina flugfélagið sem bauð í verkefnið. Um er að ræða vetrarsamning til þriggja mánaða vegna flugferða frá desember og út febrúar.

Flugleggir til Húsavíkur og Vestmannaeyja hafa ekki verið ríkisstyrktir til þessa. En til að mæta þjónustufalli var Vegagerðin beðin um að bjóða út verk til þriggja mánaða.

„Þetta útboð var að beiðni innviðaráðuneytisins. Mýflug var eina félagið sem bauð í það. Síðan er staðan sú að við bíðum eftir því að innviðaráðuneytið staðfesti fjármögnun sem hefur ekki fengist enn þá. Því höfum við ekki heimildir til að semja um verkið fyrr en búið er að fá fjárheimildir í þetta útboð,“ segir Hilmar.

Fá verkefni hjá Mýflugi

Eins og fram kom á mbl.is var öllum þrettán flugmönnum Mýflugs sagt upp störfum. Að sögn Leifs Hallgrímssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, var það vegna verkefnaskorts en eins og sakir standa flýgur félagið eingöngu til Hafnar í Hornafirði frá Reykjavík. Segir hann enn fremur að Mýflug hafi tekið þátt í útboði vegna flugs til Húsavíkur og Vestmannaeyja.

Tilboð þeirra rann út um mánaðamótin ágúst og september. Óskaði Vegagerðin eftir því að tilboðið yrði framlengt út september en engin svör hafa enn borist fyrirtækinu.

„Því bíðum við á sama tíma og þeir (Mýflug) bíða,“ segir Hilmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert