Skjáskot úr einkaspjalli rædd á þingflokksfundi

Sum þeirra sem voru í spjallinu og sem mbl.is hefur …
Sum þeirra sem voru í spjallinu og sem mbl.is hefur rætt við telja óeðlilegt að skjáskotum úr spjallinu hafi verið lekið. Samsett mynd

Skjáskot úr spjalli hóps sem tengist starfi Pírata á samskiptaforritinu Signal voru sýnd og tekin til umræðu á fundi þingflokks Pírata í kjölfar þess að ný framkvæmdastjórn var kjörin í Hörpu 7. september. 

Spjallið sem um ræðir innihélt samtöl fólks sem bauð sig fram til framkvæmdastjórnar og fékk þar brautargengi, þvert á vilja þungavigtarfólks í flokknum. Fólk í hinni nýju stjórn upplifði tortryggni í sinn garð eftir niðurstöðu kjörsins. 

Sum þeirra sem voru í spjallinu og sem mbl.is hefur rætt við telja óeðlilegt að skjáskotum úr spjallinu hafi verið lekið, en innihald þess sneri að skipulagi við framboð til framkvæmdastjórnar.

Eftir að niðurstaða kjörsins var ljós hætti Atli Thor Fanndal, samskiptastjóri flokksins, og er ástæðan sögð sú að hann hafi hjálpað til við smölun atkvæða gegn sitjandi stjórnarfólki. 

Persónuverndarlög mögulega brotin 

Ekki náðist í Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingflokksformann, sem sögð er hafa komið með skjáskotin á fund þingflokksins. Björn Leví Gunnarsson, sitjandi þingflokksformaður í fjarveru Þórhildar Sunnu, telur þetta hins vegar ekkert tiltökumál og segir að þingflokkurinn fái reglulega trúnaðargögn til umræðu í flokknum. 

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segist ekki tjá sig efnislega um mál sem ekki hafi komið á borð stofnunarinnar en segir það þó mögulegt að það geti varðað persónuverndarlög þegar skáskot fara á flakk. Það fari hins vegar m.a. eftir því hvort fólk sé persónugreinanlegt á skjáskotum. 

Atkvæðamagni stjórnar breytt eftir á

Þingflokksfundurinn þar sem skjáskotin voru rædd var haldinn 9. september, tveimur dögum eftir að umdeilt kjör til framkvæmdastjórnar var haldið. Á fundinum voru m.a. til umræðu starfsmannamál og hin nýja stjórn sem hafði verið valin í framkvæmdastjórn Pírata.

Eins og fram hefur komið var óánægja meðal sumra þingmanna í flokknum með að fyrrverandi formaður, Atli Stefán Yngvason, skyldi ekki fá brautargengi í kjörinu, heldur var hann varamaður eftir niðurstöðu kjörsins. Er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður sögð hafa verið sérstaklega óánægð með að Atli hafi ekki verið valinn.

Eftir nokkurt japl, jaml og fuður innan flokksins varð það úr að Atli og annar varamaður fengu atkvæðarétt í framkvæmdastjórn og breyttist því atkvæðamagn úr fimm atkvæðum í sjö.

Orð Halldórs Auðars sköpuðu úlfúð 

Við sama tækifæri var tilkynnt að Halldór Auðar Svansson myndi hætta sem framkvæmdastjóri stjórnar, en hann hafði skömmu áður tjáð sig við mbl.is um það að nýr armur væri að myndast innan Pírata.

Vísaði hann þá til þess að nýtt fólk hefði tekið við keflinu í framkvæmdastjórn. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa þessi orð vakið nokkra úlfúð meðal innvígðra pírata. 

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flokkurinn oft að fara með trúnaðarupplýsingar 

Björn Leví Gunnarsson, sitjandi þingflokksformaður í fjarveru Þórhildar Sunnu, segir þingflokknum reglulega berast trúnaðarupplýsingar og að skoða verði skjáskotin í því samhengi.

„Almennt séð tekur þingflokkurinn á móti trúnaðarupplýsingum og þarf að glíma við það miðað við það hvernig málið lítur út. Þannig virkar það með þingmannastarfið. Við glímum oft við trúnaðarupplýsingar og þingflokkurinn sjálfur einnig,“ segir Björn Leví. 

Þá óháð því hvernig þessar upplýsingar berast flokknum?

Já, við erum að vinna saman sem þingflokkur og getum ekki verið hvert í sínu horninu með upplýsingar þegar við erum að taka sameiginlegar ákvarðanir,“ segir Björn Leví.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Geti varðað við lög

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að stofnunin geti ekki tjáð sig efnislega um þetta tiltekna mál en almennt séð geti slík mál, þar sem skjáskotum er lekið, varðað lög um persónuvernd sem og vinnuréttarlöggjöf. 

„Svona mál þyrfti að skoða í ljósi þess hvort vinkillinn snýr að persónuvernd eða vinnurétti. Ef skjáskotið er persónugreinanlegt þarf að skoða það í samhengi við það hvernig meðferð persónuupplýsinga var hagað og hvað réttlætti birtingu til stærri hóps en þess sem var í spjallinu,“ segir Helga.

Einnig segir Helga að velta megi því upp hvað í málinu falli undir ákvæði um tjáningarfrelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert