Þarf ekki að greiða fyrir tjón á bílaleigubíl

Ljósmynd/Colourbox

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur gert bílaleigu að endurgreiða einstaklingi sem tók bíl á leigu og skemmdi hann, 1,3 milljónir króna sem hann greiddi bílaleigunni vegna skemmdanna. 

Málavextir eru þær að einstaklingurinn tók bíl á leigu fyrr á þessu ári. Einhverra hluta vegna dældi hann svokölluðum adblue vökva á bílinn í stað bensíns en aldblu er dísilútblástursvökvi sem dæmt er inn í útblásturskerfi ökutækja.

Að sögn bílaleigunnar hafði þetta þær afleiðingar að bæði vél bílsins og eldsneytiskerfi þeirra eyðilögðust. Krafði bílaleigan leigutakann um 1,3 milljónir króna, sem hann greiddi, og 1,3 milljónir króna til viðbótar sem hann ætti að greiða innan tveggja vikna. Leigutakinn fékk síðan bakþanka og krafðist þess að bílaleigan endurgreiddi honum fjárhæðina og félli frá frekari kröfum. Málið kom síðan til kasta kærunefndarinnar. 

Fram kemur í úrskurðinum að bílaleigan lagði fram tilboð umboðsaðila framleiðanda bílsins í kaup á varahlutum vegna viðgerðar á bifreiðinni og nam tilboðið 3.663.525 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt framlögðum reikningi bílaleigunnar til leigutakans var kostnaður við viðgerð og kaup á varahlutum metinn að fjárhæð 4.167.525 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Einnig lá fyrir tilboð umboðsaðila í viðgerð og varahluti, alls að fjárhæð 4.283.168 krónur.

Kærunefndin segir að til þess að krefjast skaðabóta frá sóknaraðila vegna tjónsins beri varnaraðila samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins að sýna fram á fjárhagslegt tjón sitt og raunverulegt umfang þess, vegna þeirra skemmda sem urðu á bifreiðinni á meðan sóknaraðili hafði umráð hennar. Ágreiningslaust er að leigutakinn dældi vökvanum adblue á bifreiðina í stað bensíns og olli þannig tjóni á henni. Standi þá eftir hvort ráða megi með vissu af gögnum málsins hvert raunverulegt fjártjón varnaraðila er vegna skemmda á bifreiðinni.

Að mati kærunefndarinnar dugar tilboð umboðsaðila bílaframleiðanda í viðgerð og varahluti fyrir bifreiðina ekki eitt og sér til þess að sýna fram á að hvaða marki leigutakinn hafi valdið varnaraðila bílaleigunni tjóni með skaðabótaskyldri háttsemi. Þá verði að líta til þess að bílaleigan hafi upplýst kærunefndina um að allir varahlutir sem nota þurfti til viðgerðar á bifreiðinni hafi þegar verið til á lager auk þess sem partar úr annarri skemmdri bifreið varnaraðila hafi verið nýttir til viðgerðarinnar. Þá hafi viðgerðin sjálf verið framkvæmd á verkstæði bílaleigunnar og engin skráning sé til staðar um hana.

„Í ljósi framangreinds verður því ekki unnt að leggja framangreint tilboð þriðja aðila til grundvallar enda liggur skýrt fyrir að varnaraðili festi hvorki kaup á viðgerðarþjónustu viðkomandi né varahlutum í þágu viðgerðar. Þá hefur varnaraðili ekki lagt fram nein gögn sem styðja að viðgerð hafi í raun farið fram á bifreiðinni. Hafi sú viðgerð sannanlega farið fram liggur þess auki ekkert annað fyrir hjá kærunefndinni sem sýnir fram á raunverulegt fjártjón varnaraðila, sem rakið verður til sóknaraðila“ segir í úrskurði nefndarinnar sem féllst á kröfu leigutakans um endurgreiðslu á 1,3 milljónum. Þá var viðurkennt að leigutakanum sé óskylt að greiða bílaleigunni aðra kröfu að fjárhæð 1.300.000 krónur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert