„Þetta var bara einstakur atburður“

Rafmagnslaust varð á stórum hluta landsins í gær.
Rafmagnslaust varð á stórum hluta landsins í gær. mbl.is/Sigurður Bogi

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segist hafa heyrt af tjónum vegna rafmagnsleysis sem varð á stóru svæði á landinu í gær.

„Við höfum verið að fá tilkynningar um tjón af völdum rafmagnsleysisins en ég veit ekki umfang þess,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

Fólki er bent á að setja sig í samband við RARIK hafi það orðið fyrir tjóni.

Óhapp á Grundartanga

Steinunn segir að vel hafi gengið að byggja upp kerfið hjá Landsneti og RARIK og allir hafi verið komnir með rafmagn tveimur klukkutímum eftir að því sló út í hádeginu í gær. 

Rafmagnsleysið má rekja til Norðuráls á Grundartanga en óhapp þar olli því að rafmagn sló út á stórum hluta landsins.

„Þetta var bara einstakur atburður og það hafa ekki orðin ein eftirköst. Það er aldrei ásættanlegt þegar það verður rafmagnslaust á svona stóru svæði en sem betur fer varði rafmagnsleysið ekki lengur en í um tvo tíma,“ segir Steinunn.

Munu greina atvikið

Spurð hvort þessi atburður kalli ekki á viðbrögð í kjölfarið segir hún:

„Það verður farið í að greina atvikið og förum í gegnum það að rannsaka hvað gerðist, hvernig gekk, hvernig voru varnirnar að virka og er eitthvað sem hefði verið betra að gera.“

Hún segir að alltaf megi draga lærdóm af truflunum sem þessum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert