Tímamótarannsókn um glasafrjóvganir

Þórir Harðarson, til vinstri,
Þórir Harðarson, til vinstri, mbl.is/Árni Sæberg

Gervigreind gæti leyst af hólmi huglægt mat fósturfræðinga þegar kemur að því að velja á milli fósturvísa í glasafrjóvgunarmeðferðum.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Þórir Harðarson, doktor í frjósemisfræðum og einn eigenda Sunnu frjósemi, stóð að ásamt alþjóðlegum hópi vísindafólks.

Í tilkynningu frá frjósemisstofunni Sunnu segir að um fyrstu slembiröðuðu samanburðarrannsóknina sé að ræða þar sem gervigreind er notuð til að velja á milli fósturvísa í glasafrjóvgunarmeðferðum.

Niðurstöðurnar voru birtar í hinu virta tímariti Nature Medicine í ágúst sl. og þykja nokkuð byltingarkenndar enda hefur klínískt notagildi gervigreindar í heilbrigðisþjónustu ekki verið kannað með þessum hætti fyrr.

„Í glasafrjóvgunarmeðferðum (IVF) er aðaláskorunin fólgin í því að velja fósturvísi, úr hópi nothæfra fósturvísa, sem veitir skjólstæðingum bestu möguleika á lifandi fæðingu. Sú aðferð sem almennt hefur verið notast við felst í því að taka fósturvísa úr ræktunaríláti og skoða þá í smásjá yfir nokkurra daga tímabil til að meta þroska þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að aðferðin sé bæði tímafrek og huglæg, auk þess sem meðhöndlun á fósturvísunum sé talin hafa truflandi áhrif á þroska þeirra. Þessi aðferð hafi verið notuð frá því að fyrstu glasabörnin litu dagsins ljós fyrir um 45 árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert