Bíða úttektar en óttast að rífa þurfi leikskóla

Leikskólinn Laugasól er illa farinn, og vinnu við endurbætur á …
Leikskólinn Laugasól er illa farinn, og vinnu við endurbætur á honum hefur verið hætt. mbl.is/Karítas

Beðið er úttektar á ástandi leikskólans Laugasól í Reykjavík eftir að endurbætur á húsnæðinu leiddu í ljós slæmt ástand á jarðvegi undir og í kringum skólann og burði hans.

Óttast er að rífa þurfi skólann og byggja nýtt hús, en þar eru í dag um 150 leikskólabörn. Reynt verður þó að komast hjá því ef hægt er.

Húsið byggt 1965

Ólöf Örvadóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir borgaryfirvöld vera áhyggjufull yfir því hvort að rífa þurfi skólann og byggja nýtt húsnæði. Það yrði þó síðasta úrræðið segir hún.

Hún segir jarðveg undir og í kringum leikskólann og burð ekki í samræmi við gæðakröfur. Húsið er gamalt en það var byggt árið 1965 og um 150 börn sækja skólann.

Átti að stækka leikskólann

Til stóð að stækka aðstöðu í Laugasól með endurgerð á kjallara skólahúsnæðisins. Hefðu framkvæmdir haldið áfram hefði skólinn stækkað úr sjö deildum í níu og getað rúmað um 190 til 200 börn.

„Við höfum áhyggjur af því að ekki verði hægt að endurbyggja hann, en við erum búin að kalla eftir úttekt sem kemur í næstu viku og þá fáum við skýrari mynd á þetta.“

Hún segir það vera síðasta úrræðið verði gripið til þess að rífa skólann niður og byggja nýtt:

„Helst viljum við endurbyggja og nýta það sem við eigum. Síðasta úrræðið væri að rífa það niður og byggja nýtt, bæði út af kolefnisspori, tíma og öðru,“ segir hún, en að sjái þau ekki annan kost verði það ákvörðun sem verði að taka.

mbl.is/Karítas
mbl.is/Karítas
Framkvæmdum við endurbætur leikskólans Laugasólar hefur verið hætt.
Framkvæmdum við endurbætur leikskólans Laugasólar hefur verið hætt. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert