Framganga Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns Blaðamannafélags Íslands í byrlunarmálinu er með ólíkindum, segir Sigurður G. Guðjónsson lögmaður; hún hafi frá fyrstu stundu beitt sér í málinu með ósannindum. Hann telur byrlunarmálinu engan veginn lokið.
„Formaður Blaðamannafélagsins er ekki formaður Blaðamannafélagsins, heldur formaður ákveðins hóps innan Blaðamannafélagsins, sem hefur eignað sér það,“ segir Sigurður og dregur heilindi hennar mjög í efa.
Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins, á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn má horfa á í heild sinni hér:
„Allur hennar framgangur í þessu máli, alveg frá fyrsta degi þegar hún tekur þátt í því með einum af blaðamönnunum, að láta Lasse Skytt skrifa í rit danskra blaðamanna tóma lygi. Sú lygi stendur í heilt ár. Síðan er vakin athygli á þessari lygasögu á [vef Blaðamannafélagsins] press.is af Auðunni Arnórssyni.“
Auðunn er bróðir Þóru Arnórsdóttur, fv. ritstjóra Kveiks og sakbornings við lögreglurannsókn á byrlunarmálinu. Lasse Skytt hefur orðið uppvís að margháttaðri fréttafölsun í fjölda norrænna miðla.
Sigurður rekur hvaða ósannandi hafi þar verið sett fram um framgöngu lögreglunnar við rannsóknina og afskipti stjórnmálamanna.
„Allt tóm lygi. Og Sigríður Dögg skrifaði upp á alla þessa lygi.“
Hann telur viðbrögð formannsins við niðurfellingu rannsóknarinnar einnig sérkennileg.
„Þá er hún mætt í settið á fjölmiðlum til þess að segja að þetta sé einhvers konar sigur fyrir blaðamannastéttina. Þetta er alger ósigur.“
Byrlunarmálið telur Sigurður G. Guðjónsson hvergi nærri búið. Hann segir líklegt að ríkissaksóknari þurfi að taka lyktir rannsóknarinnar til skoðunar.
„Ríkissaksóknari þarf þá að taka afstöðu. Það verður alla vegana fróðlegt að sjá hvernig ríkissaksóknari ætlar að komast framhjá því sem segir í niðurfellingarbréfinu. Hann hlýtur annað hvort að segja, þið þurfið bara að gefa út ákæru eða þá að þið þurfið að rannsaka málið til þrautar.“
Þar fyrir utan eigi brotaþoli alla kosti á að fara í einkamál, þá mögulega gegn Ríkisútvarpinu eða þeim starfsmönnum þess, sem við sögu komu.
Lögreglan á Norðurlandi eystra hætti nýlega þriggja ára rannsókn á svonefndu byrlunarmáli þrátt fyrir að hluti málsins virtist upplýstur. Það snerist um að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja á Akureyri, var vorið 2021 byrlað lyf, svo hann lá milli heims og helju á gjörgæsludeild í nokkra daga.
Á meðan stal byrlarinn farsíma hans og kom í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins, þeirra Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, og Arnars Þórissonar, framleiðanda sama þáttar. Fréttir úr efni á símanum voru hins vegar sagðar í Stundinni og Kjarnanum nokkru síðar. Við rannsóknina fengu sjö stöðu sakborninga, símaþjófurinn og sex fjölmiðlamenn.