Er kunnugt um tvo Íslendinga í Líbanon

Frá Beirút eftir árásir Ísraelsmanna.
Frá Beirút eftir árásir Ísraelsmanna. AFP

Utanríkisráðuneytinu er kunnugt um tvo íslenska ríkisborgara í Líbanon, og er í sambandi við þá.

Þetta kemur fram í svari Ægis Þórs Eysteinssonar, fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðuneytisins, við fyrirspurn mbl.is.

Hann staðfestir að annar þeirra hafi óskað eftir aðstoð Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins en geti að öðru leyti ekki tjáð sig um einstök borgaraþjónustumál.

Ægir segir möguleikum á að komast með hefðbundnum leiðum úr landinu fari ört fækkandi og því mikilvægt að þeir sem hyggjast yfirgefa Líbanon geri það sem allra fyrst.

„Við viljum ítreka að Íslendingar í Líbanon hafi samband við borgaraþjónustuna og láti vita af sér, jafnvel þó þeir séu ekki hjálparþurfi. Annað hvort í síma +354 545 0112, sem er opinn allan sólarhringinn, eða með tölvupósti á netfangið hjalp@utn.is,“ segir í svari Ægis.

Ísraelsmenn hafa á undanförnum dögum gert harðar árásir á Líbanon og eru tugþúsundir á flótta. Þá segja stjórnvöld í Líbanon að loftárás á sýrlensku landamærin í nótt hafi rofið þjóðveginn sem tengir löndin tvö saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert