Félagsmenn Sameykis talað fyrir úrsögn úr BSRB

Þórarinn er ekki lengur 1. varaformaður BSRB. Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, …
Þórarinn er ekki lengur 1. varaformaður BSRB. Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, formaður BSRB, var end­ur­kjör­in formaður BSRB. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Það er auðvitað þannig að það á enginn neitt pláss þannig að ég lít á þetta sem breytingar og niðurstaða úr lýðræðislegum kosningum,“ segir Þór­ar­inn Eyfjörð, formaður Sam­eyk­is, en fyrr í dag var hann felldur sem 1. varaformaður BSRB eftir að hafa fengið mótframboð.

Fjöln­ir Sæ­munds­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, bauð sig fram á móti Þórarni og hlaut um 67% atkvæða.

Þórarinn segir aðspurður að ekki sé útilokað að Sameyki gangi úr BSRB, en félagið er nú ekki með neinn félagskjörinn fulltrúa í stjórn BSRB.

Ekki búið að taka ítarlega umræðu um málið

Sameyki er langstærsta félagið innan BSRB. mbl.is hefur rætt við félagsmenn Sameykis sem hafa viðrað óánægju sína með úrslitin og jafnvel talað fyrir því að félagið gangi úr BSRB.

Er það eitthvað sem kemur til greina?

„Þetta er nokkuð flókin spurning sem þú spyrð. En það er rétt það sem þú segir, að eftir þessar niðurstöðu að þá heyrðist það frá mínum hópi, já. Þannig ég segi það bara,“ svarar Þórarinn.

„En þetta er ekkert sem er búið að vera á einhverri dýpt í einhverri umræðu. Við erum langstærsta félagið innan BSRB – meira en helmingur – og það er bara ákveðin staða sú stærð. Við erum langstærsta stéttarfélagið á opinberum vinnumarkaði og ætli við séum ekki þriðja stærsta stéttarfélagið á landinu, þannig þetta er stórt og sterkt félag.“

„Ekkert útilokað í þessum heimi“

Hann segir að núna sé enginn félagskjörinn fulltrúi í stjórn BSRB, enginn sem félagsmenn Sameykis sjálfir hafa kosið til embættisins, en þó er einn almennur stjórnarmaður í BSRB sem tilheyrir Sameyki.

„Þannig það er ákveðin tenging inni en hinn félagspólitíska afstaða til allra mála er tekin á vettvangi trúnaðarmannaráðs og stjórnar og aðalfundar félagsins. Þannig það er bara staðan.“

Er hægt að útiloka það að Sameyki gangi úr BSRB?

„Það er ekkert útilokað í þessum heimi. Eins og þú hefur séð væntanlega í þeim öldugangi sem er alltaf í kringum svona hagsmunabaráttu þegar komið er á þetta stig, þá má ekki útiloka neinn möguleika. En um það hefur ekki verið tekin alvöru umræða eða ákvörðun,“ segir hann.

Leiðarljósið fyrst og fremst hagsmunir félagsmanna

Hann tekur þó skýrt fram að leiðarljósið hljóti alltaf að vera það að „vinna daginn út og daginn inn“ að hagsmunum félagsmanna. Hvort sem það lúti að kjaramálum, réttindabaráttu eða að aðstoða við að greiða úr vandamálum sem félagsmenn þurfi að glíma við.

„Þar liggur okkar áhersla og þar er ég allan daginn, bæði vakandi og sofandi. Við höldum því bara áfram.“

Hann segir að lokum að hann voni að framtíðin beri í skauti sér sem allra bestu niðurstöðu fyrir félagsmenn Sameykis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert