Fréttamenn með óhreint mjöl

Byrlunarmálið snýst ekki á nokkurn hátt um heimildarmenn fjölmiðla og vernd þeirra. Lögreglu varð snemma kunnugt um hann – þann sem tók síma ófrjálsri hendi og kom í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins – og leitaði því ekki upplýsinga um hann.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, sem einnig hefur reynslu af fjölmiðlarekstri, telur að það sé afar sérkennilegt að rannsóknarblaðamenn Kveiks á Rúv. hafi ekki gert sér mat úr efni af símanum, heldur komið því til annara fjölmiðla. Þeir verði ekki heimildarmenn fyrir vikið og njóti engrar sérstakrar verndar.

Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins, á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn má horfa á í heild sinni hér:

Sigurði þykja önnur viðbrögð þeirra fjölmiðlamanna, sem viðriðnir voru málið, einnig sérkennileg. Þeir hafi sem sakborningar ekki þurft að tjá sig um málið, en þeir hafi ekki látið sér það duga, heldur ráðist á lögreglu og sagt hana ganga erinda stórfyrirtækis af sérstakri hörku.

„Allt þetta sýnir auðvitað að það er einhversstaðar óhreint mjöl í pokahorninu,“ segir Sigurður og bætir við að búið sé að spinna svo flókinn söguþráð, sérstaklega innan Blaðamannafélags Íslands, að málið sé algjörlega óskiljanlegt á þeim vettvangi.

Þriggja ára rannsókn lokið

Lögreglan á Norðurlandi eystra hætti nýlega þriggja ára rannsókn á svonefndu byrlunarmáli þrátt fyrir að hluti málsins virtist upplýstur. Það snerist um að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja á Akureyri, var vorið 2021 byrlað lyf, svo hann lá milli heims og helju á gjörgæsludeild í nokkra daga.

Á meðan stal byrlarinn farsíma hans og kom í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins, þeirra Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, og Arnars Þórissonar, framleiðanda sama þáttar. Fréttir úr efni á símanum voru hins vegar sagðar í Stundinni og Kjarnanum nokkru síðar. Við rannsóknina fengu sjö stöðu sakborninga, símaþjófurinn og sex fjölmiðlamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert