„Hefur skipt mannskapnum upp í fylkingar“

Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur staðið undir þungum ásökunum síðustu ár.
Jón Jónsson þjóðfræðingur hefur staðið undir þungum ásökunum síðustu ár. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Jón Jónsson, þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, segist vera óskaplega feginn yfir niðurstöðu úttektar endurskoðunarstofunnar KPMG sem hreinsar hann af sökum um sjálftöku á fjármunum úr sveitarsjóði í eigin þágu að upphæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hreppsnefnd sveitarfélagsins Strandabyggðar.

Hann segir málið hafa haft mikil áhrif á sig og fjölskyldu sína. Íhuga þau nú að flytja í burtu en að öðru leyti séu næstu skref óráðin.

Jón hefur setið undir þungum ásökunum frá starfsmönnum sveitarfélagsins í allt að þrjú ár að eigin sögn.

Í sumar kallaði hann eftir íbúakosningu þar sem hann fór fram á að greidd yrðu atkvæði um kröfu hans til sveitarfélagsins að gerð yrði óháð rannsókn á ásökununum.

Fór svo að leitað var til KPMG til að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns.

Niðurstöður úttektarinnar birtust í vikunni þar sem kom fram að ekki væri annað að sjá en að greiðslur til Jóns, svo og þeirra fyrirtækja sem hann á og stofnana sem hann sat í stjórn hjá á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.

Sveitarstjóri heldur sig við fyrri fullyrðingar

„Ég er óskaplega feginn yfir þessari niðurstöðu og glaður að það sé komið skjal sem ég get vísað í,“ segir Jón í samtali við mbl.is

Segir hann að hreppsnefnd Strandabyggðar muni funda um málið á þriðjudaginn í næstu viku og að þá muni viðbrögð hennar við niðurstöðunum koma í ljós.

Að sögn Jóns hefur þó sveitarstjóri sveitarfélagsins, Þorgeir Pálsson, tjáð sig um niðurstöðurnar.

„Hann heldur sig við fyrri fullyrðingar um að ég hafi stolið 61 milljón. Þrátt fyrir skýrsluna.“

Málið verið lýjandi

Nú er þetta ekki stórt sveitarfélag, hvernig áhrif hefur þetta haft á íbúana innan þess?

„Þetta er bæði lýjandi og hefur skipt mannskapnum upp í fylkingar.“

Þá segir Jón áhrifin vera mikil á þá sem standa honum nærri.

„Ég get nefnt sem dæmi að sama dag og niðurstaðan kom var síðasti vinnudagur konunnar minnar á Sauðfjársetrinu á Ströndum sem framkvæmdastjóri. Hún sagði upp út af þessu máli hreinlega. Ekki bara út af ásökununum af því að það skiptir í raun engu máli að einhver einn karl sé að ljúga. Það er bara þegar að hinir fara að trúa honum.“

Einblínt á tvær menningarstofnanir

Talið færist yfir í niðurstöður úttektarinnar og segir Jón að svo virðist sem einblínt sé mest á tvær menningarstofnanir sem Jón hafi verið á bak við á sínum tíma. Eru það stofnunin Strandagaldur sem rekur galdrasýninguna á Ströndum og menningarmiðstöðin Sauðfjársetrið á Ströndum.

Segir Jón að sér finnist eins og þær stofnanir og styrkir til þeirra séu til rannsóknar en ekki hann sjálfur þegar litið er yfir niðurstöður úttektarinnar.

Þá segir hann Þorgeir Pálsson beinlínis ýta á það að Jón sé að fá þá styrki sem stofnanirnar hafi fengið síðustu 20 ár, auk reksturs upplýsingamiðstöðvar á Hólmavík, og að þaðan sé talan um rúma 61 milljón komin.

Ekki hægt að vera í stjórn með ásakanir á sér

Segist Jón þó hafa lítið sem ekkert verið í stjórn þeirra stofnana síðustu 20 ár. 

„En svo hef ég ekkert verið í stjórn þessara stofnana. Ég stofnaði þær. Ég var á bak við þær á sínum tíma. Ég er hugmyndasmiður bæði að Sauðfjársetrinu og galdrasýningunni. En svo hef ég ekkert verið í stjórn,“ segir Jón og bætir við að hann hafi ekki setið í stjórn Sauðfjársetrisins síðan árið 2007. Sama ár hafi hann einnig sagt sig úr stjórn Strandagaldurs en hafi þó stigið þar aftur inn árið 2018 eftir að framkvæmdastjóri stofnunarinnar var bráðkvaddur.

Hann hafi svo hætt aftur í þeirri stjórn á þessu ári.

„Það er ekkert hægt að vera í stjórn svona menningarstofnana með svona ásakanir á bakinu.“

Hugmyndir um flutning annað 

Aðspurður segir hann næstu skref vera óákveðin en játar því að hugmyndir séu á sveimi um flutning úr sveitarfélaginu.

„Það er eitthvað sem ég ætla að skoða í framhaldinu, já,“ segir Jón og bætir við.

„Ég er í mjög góðri vinnu hins vegar sjálfur, hjá rannsóknarsetri Háskólans í þjóðfræði á Hólmavík sem er draumastarfið mitt. Það er dálítið súrt að yfirgefa hana. En þetta er í skoðun. Kannski fara með aðra löppina suður eða eitthvað svoleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert