„Hissa á að ráðherra hafi skipað þetta“

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldgosið í Holuhrauni árið 2014. Hann …
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við eldgosið í Holuhrauni árið 2014. Hann telur óráð að byggja flugvöll í Hvassahrauni og bendir á nafn hraunsins, það sé ungt. mbl.is/RAX

„Við skulum byrja á því að þetta heitir Hvassahraun,“ segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og prófessor emeritus, við mbl.is um flugvallarumræðuna lífseigu. Eins og Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur skrifar Haraldur á Facebook og hefur stutt og laggott:

Það væri fróðlegt að fá birtan lista yfir þá spekinga sem sátu í nefnd þeirri sem skiluðu skýrslu til innviðaráðherra (hvílíkt nafn!) varðandi hugsanlegan flugvöll í Hvassahrauni í dag. Ráðherra telur „að það séu óveru­leg­ar lík­ur á því að þetta svæði ná­kvæm­lega, þetta mögu­lega flug­vall­ar­stæði í Hvassa­hrauni, yrði fyr­ir áhrif­um af hraun­rennsli“. Þarna er djarft spilað og gengið út á ystu mörk skynseminnar.

Haraldur heldur áfram við mbl.is: „Hvers vegna heitir það Hvassahraun? Vegna þess að það er svo hvassbrýnt, það er svo gróft og það er svo ungt. Í öðru lagi: Þar sem vellur út hraun, þar eru miklar líkur á að komi annað og enn þá yngra hraun ofan á í framtíðinni,“ segir prófessorinn.

„Þetta er vandræðasvæði“

Í þriðja lagi bendir hann á að Reykjanesskaginn sé allur að vakna, allt frá Hengli og út að Reykjanesvita, þar á meðal Krýsuvíkursvæðið sem næst sé Hvassahrauni.

„Þar að auki eru áhrif frá þeirri sprungu sem nú er í gangi hvað snertir hraun sem rennur í norður, þetta er vandræðasvæði hvernig sem á það er litið,“ segir Haraldur og beinir sjónum sínum að starfshópnum sem vann skýrslu um flugvallargerð á svæðinu.

„Það er ekki einn einasti sérfræðingur í hópnum. Það eru einhverjir skipulagsmenn og svo er hitt valið pólitískt af sveitarfélögunum, það er furðulegt og ég er hissa á að ráðherra hafi skipað þetta, eða hver sem gerði það, og hissa á að ráðherra taki þessu fagnandi, af því að þetta líti svo vel út. Ég lít svo á að þetta sé afleitt,“ segir Haraldur ákveðinn.

Mýrar eða Suðurland

Að sjálfsögðu sé áhugi fyrir því að byggja annan flugvöll fyrir höfuðborgarsvæðið einhvers staðar. „En þetta er ekki staðurinn. Mér líst þannig á að Keflavíkurflugvallarsvæðið sé prýðilegt, það er byggt á grágrýti sem er hundrað þúsund ára gamalt og meira. Þar er ekki eldvirkni og þar er ekki sprungusvæði. Það getur króast af um tíma en ég held að framtíðin sé að vera þar,“ segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur en nefnir einnig Mýrar í Borgarfirði og Suðurlandið.

„Ég tel að utan Keflavíkurvallar sé ekki skynsamlegt að reisa annan völl á virka gossvæðinu,“ eru lokaorð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert