„Við erum bara ekki nógu mörg“

Hvassahraun. Er hægt að byggja skýrslu á forsendum sem ríktu …
Hvassahraun. Er hægt að byggja skýrslu á forsendum sem ríktu fyrir eldsumbrot? mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að læra rosalega mikið á öllum þessum atburðum sem við erum að sjá og horfa á. Vissulega væri gott að geta tekið nýjar upplýsingar inn í alveg jafnóðum, en þetta tekur allt saman tíma og að skrifa skýrslu tekur tíma,“ segir Bergrún Arna Óladóttir jarðfræðingur í samtali við mbl.is um Hvassahraunsskýrsluna svokölluðu um hentugleika flugvallargerðar í Hvassahrauni.

Bergrún Arna vann við fimmta mann viðaukann „Hvassahraun: Hættumat vegna eldgosa og jarðskjálfta“. Þar kemur eftirfarandi fram:

„Að lokum skal tekið fram að forsendur í þessari skýrslu eru byggðar á stöðu þekkingar áður en eldvirkni gerði vart við sig á ný á Reykjanesskaga og gosin í Fagradalsfjalli árið 2021 og 2022 áttu sér stað. Þær forsendur gera ráð fyrir því að afar langur tími (600–800 ár) líði á milli tiltölulega styttri (400–500 ár) tímabila eldvirkni á Reykjanesskaga. Á milli tímabila eldvirkni er jarðskjálftavirkni á brotabeltinu ráðandi.“

Bergrún var spurð hvort verjandi væri að byggja á úttekt byggðri á forsendum sem til staðar voru áður en eldsumbrot hófust á svæðinu eða að minnsta kosti í nágrenni þess.

Kveður hún það eðlilegt að skýrsla sé gefin út á einhverjum tímapunkti og sú skýrsla byggi þá á þeirri vinnu sem búið var að óska eftir í vinnsluferlinu. „Ferlið tekur bara langan tíma,“ segir Bergrún Arna og er spurð hvað hún sjái fyrir sér í framhaldi málsins næstu misseri.

Ekki búin að herma allt sem getur gerst

„Við verðum bara að horfast í augu við það að við búum í lifandi landi,“ svarar jarðfræðingurinn um hæl og bendir á að sérfræðingar landsins hafi fullt í fangi með að fylgjast með vendingum í atburðarásinni. „Tíminn til að horfa á og endurgera allt sem er búið að gera er bara ekki til, við erum bara ekki nógu mörg,“ segir Bergrún Arna enn fremur.

Hún segir þær forsendur sem gefnar séu í skýrslunni og þær hermanir sem hafi verið gerðar auk viðauka Veðurstofunnar standi allt eins og stafur á bók. „En það eru bara ákveðnar sviðsmyndir sem eru hermdar, við erum ekki búin að herma allt sem mögulega getur gerst.“

Hættumat sé aldrei búið. „Um leið og einhver nýr atburður gerist þarf að endurmeta, um leið og við fáum hraun eru þær hraunhermanir sem við höfum gert úreltar. Nú erum við svo heppin að við erum ekki búin að fá neitt hraun inn á akkúrat þetta svæði svo við stöndum alveg við þær hermanir sem hafa verið gerðar,“ segir Bergrún Arna.

Hún telur alla nauðsyn á að horfa heildstætt á aðstæður og ítrekar það sem Eyjólfur Árni Rafnsson verkefnisstjóri skýrsluhópsins hafi sagt í fjölmiðlum. „Nú er komin ósk um uppfært hættumat fyrir allan Reykjanesskagann og það verkefni er komið í gang og er í forgangi hjá Veðurstofunni, fyrstu skýrslur úr því eru að fara að birtast núna hvað úr hverju,“ segir viðmælandinn.

Að lokum bendir hún á að myndin sé allt önnur en fyrir fimm árum, við búum einfaldlega við annan raunveruleika nú en fyrir fimm árum. „Þá var ekki virkni í gangi á Reykjanesskaganum,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka