„Miðað við það sem við höfum lesið í fjölmiðlum, og ekki bara þessi lýsing konunnar heldur aðrar líka, þá er mjög átakanlegt að lesa þessar frásagnir og okkur þykir þetta virkilega leitt. Við viljum ekki að þjónustan sé svona,“ segir Gerður Beta Jóhannsdóttir, forstöðuhjúkrunarfræðingur ferlisþjónustu Landspítala, í samtali við mbl.is.
Dökk mynd var dregin upp af ástandinu á bráðamóttöku Landspítalans í viðtali mbl.is við Ernu Guðmundsdóttur í gær.
Þar segist hún meðal annars hafa mátt dúsa í yfir 36 klukkutíma á göngum Landspítalans, bæði fyrir og eftir aðgerð sem hún fór í vegna sköflungs-og ökklabrots, þar sem beinin voru negld saman. Þá segir Erna að hún hafi á tímabili verið mjög berskjölduð, hafi legið hálfnakin í opnu rými og átt að pissa fyrir framan ókunnugt fólk, meðal annars aðstandendur annarra sjúklinga.
„Ég veit að starfsfólkið tekur þessar lýsingar og frásagnir mjög nærri sér líka. Þegar við fáum ábendingar þá förum við ofan í söguna og reynum að greina, læra og bæta. Rauði þráðurinn er hins vegar aðstæðurnar sem bæði sjúklingar og starfsfólk eru sett í á bráðamóttökunni,“ segir hún.
Gerður Beta segir að vandinn sem birtist á bráðamóttökunni sé birtingarmynd af stærra vandamáli sem í langan tíma hafi verið bent á.
„Sumt í okkar starfsemi sem snýr að okkur og við getum lagað en svo eru ákveðnir þættir sem við getum ekki leyst innan spítalans. Við höfum verið á stigi 3 undanfarnar vikur og nýtingin hefur verið alveg upp í 180%. Rúmastæðin á bráðamóttökunni eru 36 en fjöldi sjúklinga hefur farið allt upp í 100 manns á klukkustund.“
Hún segir að það sé erfitt að setja starfsfólk bráðamóttökunnar í þessar aðstæður. Hún viti að starfsfólkið leggi sig allt fram en aðstæðurnar séu mjög krefjandi og erfiðar.
Gerður segir ástæðuna fyrir því að bráðamóttakan teppist vera þá, og hefur verið talað um lengi, að það að eru 70-80 biðsjúklingar á spítalanum, sem ættu að vera í úrræðum annars staðar en á Landspítala og ef hægt væri að koma þeim á hjúkrunarheimili væri staðan allt öðruvísi. Þá bendir hún á að spítalinn sé með 110% nýtingu á legurýmum en nýtingin þyrfti að vera í kringum 90% til að komast hjá aðstæðum eins og skapast reglulega á bráðamóttökunni.
„Við erum föst með legusjúklingana á bráðamóttökunni og þeir eru alveg upp í 30-40 í þessum aðstæðum en komast ekki upp á legudeildirnar sem eru yfirfullar. Staðan er því erfið. Frumskylda bráðamóttökunnar er að sinna bráðum tilfellum og starfsfólkið hefur unnið við ótrúlega krefjandi aðstæður á undanförnum vikum með ígildi tveggja legudeilda inni á deildinni,“ segir Gerður.
Hún segir að starfsfólkið fari heim án þess að hafa náð að komast í verkefni sín og hafi ekki náð að sinna þeim á þeim hraða sem á þurfi að halda.
Gerður Beta bendir á að landsmönnum hafi fjölgað gríðarlega mikið og að margir erlendir ferðamenn sæki landið heim en á sama tíma sé bráðamóttakan með sama fermetrafjölda.
„Við höfum bætt inn ýmsum þáttum inn á bráðamóttöku til að reyna að bregðast við þessu en okkur er þröngur stakkur búinn miðað við húsnæðið og slíkt.
Gerður segir í lokin að það sé ömurlegt fyrir fólk að lenda í þeim aðstæðum aftur og aftur eins og lýst er meðal annars í frásögn Ernu Guðmundsdóttur.