Hámarkshraði lækki á Suðurlandsbraut

Tillagan var samþykkt á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur.
Tillagan var samþykkt á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tillaga um að lækka hámarkshraða á Suðurlandsbraut úr 60 km/klst. í 40 km/klst. var samþykkt á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur.

Á fundi íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis 26. september 2023 var lögð fram og samþykkt tillaga um að beina því til umhverfis- og skipulagsráðs að breyta tafarlaust hámarkshraða við Suðurlandsbraut, úr 60 km/klst. niður í 40 km/klst., í samræmi við hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur.

Í greinargerð með tillögunni segir að Suðurlandsbraut sé mikill ferðatálmi milli hverfisins og Laugardalsins þangað sem íbúar sæki fjölbreytta þjónustu, tómstundir og afþreyingu. „Nýleg umferðarslys/bílveltur í götunni draga fram með skýrum hætti það skerta öryggi sem óvarðir vegfarendur standa frammi fyrir í nágrenni við götuna og þegar hún er þveruð.“

Leitað var eftir umsögn samgöngustjóra borgarinnar, sem svaraði erindinu 21. febrúar 2024.

Samgöngustjórinn segir að margir gangandi vegfarendur eigi leið yfir Suðurlandsbraut. Við hana liggur Laugardalurinn, samfelldur göngu- og hjólastígur milli Elliðaárdals og miðborgarinnar og ýmis þjónusta. Út frá sjónarmiðum umferðaröryggis sé mikilvægast að draga úr hraða bílaumferðar og almennt bæta aðstæður og öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda við gatnamót og aðrar gönguþveranir.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag, laugardag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert