Steinþór Einarsson sagði það „ömurlegt“ að þurfa að rifja upp Ólafsfjarðarmálið í Landsrétti í gær. Ákæruvaldið krefst þess að átta ára fangelsisdómur í málinu verði þyngdur.
Fyrir tveimur árum varð Steinþór Tómasi Waagfjörð að bana með því að stinga hann tvisvar sinnum í vinstri síðu með hníf.
Í janúar á þessu ári var Steinþór dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra til áðurnefndar fangelsisvistar og til að greiða tveimur ólögráða börnum Tómasar sex milljónir króna í miskabætur hvoru um sig og skaðabætur upp á 6,6 milljónir annars vegar og 4,4 hins vegar. Málinu var áfrýjað af honum í sama mánuði.
Í gær fór síðan fram aðalmeðferð í málinu í Landsrétti.
Dagurinn hófst á því að upptaka af skýrslutöku yfir Steinþóri í héraðsdómi var spiluð.
Nánar má lesa um skýrslutökuna hér að neðan, en í stuttu máli kom til átaka á milli Tómasar og Steinþórs er Tómas krafðist þess að eiginkona sín, sem var æskuvinkona Steinþórs, snéri aftur á heimili þeirra aðfaranótt 3. október 2022 á Ólafsfirði. Hjónin höfðu átt í stormasömu sambandi.
Steinþór fylgdist nokkuð eirðarlaus með upptökunni af sjálfum sér, sem tók rúmar 50 mínútur, í Landsrétti.
Í kjölfarið var tekin viðbótarskýrsla af honum.
Óli Ingi Ólason saksóknari spurði Steinþór hvort hann vildi bæta einhverju við eftir að hafa horft á skýrsluna. Svaraði Steinþór neitandi en sagði einfaldlega „ömurlegt“ að þurfa rifja málið upp.
Óli Ingi sagði þá að Steinþór hefði lýst atburðarrásinni í ýmsum smáatriðum fyrir héraðsdómi, en þó ekki aðalatriðinu – hvernig Tómas hafi verið stunginn tvisvar í síðuna.
Steinþór sagðist ekki vita hvernig það kom til. Hlutirnir hefðu gerst mjög hratt og það hefði komið honum mjög á óvart að Tómas hefði látið lífið. Hann hefði í raun ekki fengið að vita það fyrr en morguninn eftir.
Spurður beint út hvort hann hefði vísvitandi stungið Tómas tvisvar með hníf svaraði Steinþór neitandi.
Mikið var tekist á um jógabolta sem fannst sprunginn á vettvangi í aðalmeðferðinni. Stungið hafði verið í boltann nokkrum sinnum og fannst blóð úr Tómasi og Steinþóri inn í honum.
Ákæruvaldið velti upp þeirri sviðmynd að Tómas hefði varist höggum Steinþórs með boltanum.
Steinþór sagðist hins vegar „120% viss“ um að Tómas hefði ekki notað boltann til varnar.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson verjandi spurði Steinþór hvernig honum hefði liðið á meðan árásinni stóð. Steinþór svaraði að hann hefði verið hræddur um líf sitt útaf eggvopninu, og að aðalatriðið hefði verið að ná hnífnum af Tómasi.
Hann sagðist telja að hann hefði líklega látist ef hann hefði ekki náð hnífnum af Tómasi. Steinþór vildi því meina að hann hefði klárlega verið að berjast fyrir lífi sínu umrædda nótt.
Spurður út í fas Tómasar almennt sagði Steinþór að hann hefði almennt verið mjög rólegur maður.
Steinþór sagðist aldrei hafa séð Tómas í álíka ástandi og lýsti því að um hefði verið einhverskonar skyndisturlun að ræða.
Ljóst var í aðalmeðferðinni að mikil biturð ríkir á milli Steinþórs og eins af vitnum málsins, frænda Tómasar.
Umræddur frændi hafði dvalið á heimili Tómasar dagana áður.
Steinþór vildi meina að frændinn hefði vitað í hvað stefndi þar sem hann vissi að eiginkona Tómasar hefði sagst ætla að fara frá Tómasi og flytja suður. Frændinn hefði fylgst með Tómasi brýna hníf stuttu áður en átökin áttu sér stað.
„Skil ekki af hverju hann gat ekki sagt eitthvað,“ sagði Steinþór um frændann.
Frændinn bar síðar vitni fyrir dómi í gegnum fjarfundarbúnað og sagði ýmislegt hafa gengið á milli hjónanna, en að „þetta var það síðasta sem ég bjóst við að myndi gerast.”
Hann sagði að ef hann hefði vitað í hvað stefndi hefði hann farið með Tómasi á heimili vinkonunnar.
Í lok skýrslutöku sinnar sagðist frændinn vona að Steinþór yrði ævilangt í fangelsi.
Eftir að skýrslutöku yfir Steinþóri lauk yfirgaf hann þinghaldið og þá bar Pétur Guðmann Guðmannsson réttarmeinafræðingur vitni.
Hann var ítrekaður spurður hvort að stungusárin á Tómasi hefðu getað verið af völdum slyss eða sjálfsvígs.
Pétur sagði það tæknilega vera hægt að Tómas hefði stungið sjálfan sig, en að það væri ódæmigert og ólíklegt. Þá væri um mjög óvanalega aðferð til sjálfsvígs á afbrigðilegum stað.
Hann sagði tvö álíka stungusár „klassískt fyrir manndráp“.
Í kjölfar vitnisburðar Péturs voru upptökur af skýrslutökum lögreglu yfir ekkju Tómasar á Hólmsheiði 5. og 6. október 2022 spilaðar. Hún lést rúmu ári eftir dauða eiginmannsins.
Ekkjan sást þar í miklu uppnámi lýsa atburðarrásinni. Hún sagðist hafa rifist við Tómas dagana áður og að hann hefði ráðist á Steinþór umrætt kvöld. Hún reyndi að stíga á milli þeirra. Allt í einu hefði verið mikið blóð og Steinþór sagt henni að hringja á Neyðarlínuna.
Konan sagðist aldrei hafa séð hnífinn eða hver stakk hvern. Þá sagðist hún ekki hafa séð örlög áðurnefnds jógabolta, „ég var frekar að huga að manninum mínum”.
Því næst var spiluð upptaka af símtalinu við Neyðarlínuna, upptaka úr búkmyndavél lögreglumanns sem kom á vettvang og upptaka af sviðsetningu atburða sem fór fram í nóvember 2022.
Þá var komið á málflutningi Óla Inga og Vilhjálms.
Líkt og áður sagði fer Óli Ingi fram á að refsing verði þyngd. Það kom bæði dómörum og verjanda að óvörum.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari fór fram á fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra að Steinþór yrði dæmdur í fimm ára fangelsi eða minna þar sem að hann hefði þurft að beita neyðarvörn. Hann hefði þó farið út fyrir mörk leyfilegrar neyðarvarnar og að líti yrði til þess að Tómas hefði látist í átökunum.
Héraðsdómur féllst á að að Steinþór hefði sætt ólögmætri árás með hættulegu vopni sem honum var nauðsynlegt að verjast eða afstýra, en ekki á að Steinþór hefði sýnt fram á að hann hefði þurft að beita neyðarvörn. Steinþór var því dæmdur fyrir manndráp.
Því sagðist Óli Ingi hafa ákveðið að líta til dóms héraðsdóms og fallið frá nálgun Kolbrúnar um neyðarvörn.
Óli Ingi sagði ekkert hafa komið fram til að hnekkja niðurstöðu réttarmeinafræðinga að um ásetningsverk hefði verið að ræða. Því væri það hafið yfir skynsamlegan vafa að Steinþór hefði stungið Tómas og þannig orðið honum að bana.
Hann sagði Steinþór muna eftir atvikinu í smáatriðum, en fyrir „einhverja sérkennilega tilviljun“ ekki getað lýst áverkum Tómasar og þannig ekki lýst því hvernig meint neyðarvörn hefði átt sér stað.
Óli Ingi minntist á jógaboltann í þessu samhengi og sagði augljóst að boltinn hefði verið í miklu návígi við mennina, en Steinþór hins vegar sagst ekki muna eftir boltanum.
Hann sagði frásögn Steinþórs því einfaldlega ekki ganga upp. Því verði að byggja á óbeinum sönnunargögnum þar sem að Tómas er látinn og getur ekki gefið sinn vitnisburð.
Saksóknarinn sagðist telja að Steinþór hefði náð hnífnum af Tómasi og stungið hann tvisvar snögglega í síðuna. Þá vildi hann meina að Steinþóri hefði verið ljóst að Tómas myndi mjög líklega hljóta bana af og þar af leiðandi Steinþór framið manndráp af ásetningi.
Óli Ingi lagði það í mat dómsins að meta þyngd refsingarinnar.
Vilhjálmur, verjandi Steinþórs, fer fram á sýknu og til vara að refsingin verði milduð og bundin skilorði.
Í málflutningi sínum gagnrýndi hann málflutning Óla Inga harðlega og sagði málatilbúnað ákæruvaldsins „fyrir neðan allar hellur”, og vísaði þar til kröfu um refsiþyngingu.
Vilhjálmur sagðist vera heyra af því fyrst í gær og gagnrýndi greinargerð saksóknara sem hann lagði fyrir Landsrétt. Sagði verjandinn að ekki einu orði hefði verið minnst á kröfuna í greinargerðinni sem var hálf blaðsíða.
Hann sagði afstöðu Kolbrúnu saksóknara í héraðsdómi skýran og ljóst væri að hún væri með reyndustu sækjendum landsins.
Óli Ingi svaraði því að hann væri á engan veginn bundinn kröfum hennar í héraði, þó að hún væri vissulega mjög reyndur og fær saksóknari.
Hann sagði það vera fullkomlega eðlilegt að ríkissaksóknari væri ekki endilega sammála nálgun héraðssaksóknara og að í þessu tilviki væri verið að virða niðurstöðu héraðsdóms.
Vilhjálmur sagði að ef ekki væri litið svo á að neyðarvörn hefði verið beitt væri alveg eins hægt að henda þeim lagaákvæðum úr íslenskum lögum.
Hann sagði Tómas hafa haft einskæran ásetning að svipta Steinþór lífi, og eftir atvikum aðra. Áður hefði ýmislegt gengið á milli hjónanna, og lögregla meðal annars kölluð til. Tómas hefði komið inn í íbúðina vopnaður hnífi og eiginkonan því fullt tilefni að óttast um líf sitt.
Steinþór hefði gert það sem „réttsýnt og vel meinandi fólk“ gerði, tekið æskuvinkonu sinni til varnar og sagt Tómasi að fara.
Vilhjálmur sagði ekki vita hvað hefði gerst ef eiginkonan hefði farið með Tómasi. Ekki hefði komið til þess vegna þess sem Steinþór gerði. Hann sagði því alveg ljóst að um neyðarvörn var að ræða. Steinþór hefði talið sig vera berjast fyrir lífi sínu.
Verjandinn sagði það vera ákæruvaldsins að sanna þá verknaðarlýsingu sem sett er fram í ákæru – sanna að Steinþór hefði svipt Tómas lífi með því að stinga hann tvisvar af ásetningi. Hann sagði ákæruvaldið hins vegar ekki hafa sannað þessa hluti.
Dómari spurði þá Vilhjálm hver hefði banað Tómasi. „Það er ákæruvaldsins að sanna það.“
Vilhjálmur sagði margt líkt í þessu máli og í Blönduósmálinu, en í því tilviki var málið fellt niður vegna neyðarvarnar.
Í báðum tilvikum hefðu mennirnir talið sig vera staddir á öruggum stað er árásarmaður kom inn að kvöldlagi. Hann sagði að í báðum tilvikum höfðu einstaklingarnir ekki bara ástæðu til að óttast um sjálfa sig, heldur líka um aðra sem voru á vettvangi.
Óli Ingi sagði vissulega vera einhver líkindi, en að reginmunur væri á, þar sem að í Blönduósmálinu gekkst gerandinn við því sem gerðist og gat skýrt og fært rök fyrir neyðarvörninni.
Vilhjálmur sagði að vissulega hafi legið fyrir játning í því máli, en það ætti ekki við í Ólafsfjarðarmálinu þar sem Steinþór vissi einfaldlega ekki hvernig Tómas var stunginn.