Svandís nýr formaður og Guðmundur varaformaður

Guðmundur Ingi og Svandís í góðum gír á landsfundinum í …
Guðmundur Ingi og Svandís í góðum gír á landsfundinum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavars­dótt­ir er nýr formaður Vinstri Grænna. Hún var ein í fram­boði til for­manns. Lands­fund­ur flokksins hófst í gær og lýk­ur á morg­un.

Svandís hlaut 175 atkvæði en 6 voru auð.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fráfarandi formaður, var kjörinn varaformaður flokksins með 145 greiddum atkvæðum. 

Jó­dís Skúla­dótt­ir þingmaður gaf kost á sér til varaformanns en hlaut 27 atkvæði. Auðir seðlar voru fjórir.

Ritari og gjaldkerfi sjálfkjörnir

Hólmfríður Jennýjar- Árnadóttir var sjálfkjörin nýr ritari flokksins með 146 atkvæðum. Steinar Harðarson var sömuleiðis sjálfkjörinn í stöðu gjaldkera. Hlaut hann 159 atkvæði.

Nýir meðstjórnendur í stjórn Vinstri grænna eru: Aldey Unnar Traustadóttir, Anna Þorsteinsdóttir, Elín Björk Jónasdóttir, Fjölnir Sæmundsson, Jósúa Gabríel Davíðsson, Maarit Kaipainen og Pétur Heimisson.

Jódís Skúladóttir, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Berglind Häsler eru varamenn.

Samfylking og Miðflokkur að færast til hægri

Í kjölfar þess að úrslitin voru kynnt hélt Svandís ræðu og fór þar um víðan völl. Sagði hún meðal annars að framtíðin væri björt hjá flokknum og fór yfir ýmiss málefni sem flokkurinn hefur komið að síðustu tvö kjörtímabilin.

Sagði hún að snúin staða væri vegna fylgi flokksins, sem mældist í síðustu könnun innan við 5%. Það yrði ekki nóg til að fá þingsæti á Alþingi.

Hún sagði einnig að pláss væri fyrir sterka vinstri rödd á tímum þar sem flokkar væru að færa sig frá vinstri til hægri. 

„Það er uppi hægri bylgja í stjórnmálum, við sjáum Samfylkinguna hliðrast til hægri, að miðjunni, og yfir hana jafnvel á sumum sviðum. Við sjáum líka flokk sem kennir sig við miðjuna færa sig og taka sér stöðu hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Svandís í ræðu sinni.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert