Svandís: Skuli stefnt að kosningum í vor

Svandís Svavarsdóttir, nýr formaður VG, á landsfundi hreyfingarinnar í dag.
Svandís Svavarsdóttir, nýr formaður VG, á landsfundi hreyfingarinnar í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Svandís Svavarsdóttir, nýr formaður Vinstri grænna, segir það áfanga að hafa náð að endurnýja forystu hreyfingarinnar á landsfundi VG í dag.

„Þetta er öflugur hópur. Ég legg mikla áherslu á að það sé breið forysta. Að við höldum því til haga að VG hefur mjög sterkar grasrótarskírskotanir,“ sagði Svandís í samtali við blaðamann mbl.is að kosningu lokinni.

Var Svandís sú eina sem bauð sig fram til formennsku en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nú fyrrum formaður flokksins, gaf ekki kost á sér til formennsku á ný heldur sóttist eftir varaformennskusæti hreyfingarinnar gegn Jódísi Skúladóttur. Hlaut Guðmundur Ingi kjör með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Fyrir liggja drög að ályktun sem verður tekin fyrir á morgun um að VG slíti stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.

Farið að síga á úthald og þolgæði grasrótarinnar

Spurð um afstöðu sína í þeim efnum segir Svandís opið samtal hafa átt sér stað um ályktunina og ýmsar nálganir þar á. Einhverjar breytingartillögur hafi verið í farvatninu. 

„En maður finnur alveg að það er farið að síga á seinni hlutann í úthaldi og þolgæði okkar grasrótar gagnvart þessu samstarfi og við eigum að hlusta eftir því og taka mark á því,“ segir Svandís.

„En maður finnur alveg að það er farið að síga …
„En maður finnur alveg að það er farið að síga á seinni hlutann í úthaldi og þolgæði okkar grasrótar gagnvart þessu samstarfi.“ mbl.is/Ólafur Árdal

Innt eftir því hvort hennar persónulega afstaða gagnvart tillögunni væri skýr svarar Svandís að mikilvægt sé að hreyfingin hafi ráðrúm til að safna liði, stilla saman strengi og ákveða kosningaáherslur VG.

„Ég hef sagt að það skuli stefnt að því að það verði kosið með vorinu. Nú tala ég sem formaður en ekki sem ráðherra í ríkisstjórn. Þannig það er alveg augljóst að við þurfum að ræða saman formenn flokkanna sem eigum aðild að þessari ríkisstjórn og meta það hvernig þessum vetri vindur fram.“

Fólk þyrst í róttækar rætur VG

Kveðst Svandís gera ráð fyrir að nýkjörin stjórn hefjist strax handa á morgun og haldi sinn fyrsta stjórnarfund. Stórt verk sé fyrir höndum og segir Svandís aðkallandi að hreyfingin hugi að innra starfi og hvernig hún geti náð sem best til kjósenda.

„Við ætlum að ná sambandi við kjósendur og almenning í landinu og þurfum að gera mjög skýra sóknaráætlun fyrir VG.“

Telurðu að VG muni hverfa meira til síns róttæka uppruna á næstunni?

„Já, það er svona það sem fólk er að tala um. Ég held að það sé alveg full ástæða til núna þegar kosningar nálgast að hver flokkur skerpi sín erindi. Ég held að það sé eðli máls í aðdraganda kosninga að það gerist. Þannig að ég geri ráð fyrir að við gerum það, ég fann að það var mikil eftirspurn eftir róttækni í ræðum og svona. Þannig fólk er virkilega þyrst í að finna fyrir þeim rótum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka